152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir. Ég er hjartanlega sammála, bara hjartanlega sammála. Ég vil leggjast á allar þær árar sem ég get lagst á til að koma málum þannig fyrir að fólk þurfi ekki að flytjast úr sínum byggðarlögum, ekki af því að það vill ekki búa þar heldur af því að það getur ekki lengur búið þar út af einhverjum atvinnuháttum eða einhverjum öðrum ytri aðstæðum sem það ræður ekki við. Það er bara þyngra en tárum taki. Ég máta þetta bara á sjálfan mig, ef ég væri allt í einu í þeirri stöðu að geta ekki búið þar sem ég vil búa út af einhverju slíku. Auðvitað myndi mér svíða það. Ég t.d. man eftir, ég nefni þetta bara af því að við erum að ræða þetta, þegar einhvern tíma var verið að tala um að það væri ekki verið að moka vegina á Ströndum og í Árneshreppi. Þá heyrði ég á tal manna sem fannst furðulegt að það ætti að vera standa of mikið í því vegna þess að þarna byggju fáir og það skipti kannski ekki máli. Þetta er alveg ótrúlega nöturlegt viðhorf. Það sem við þurfum að gera í allri þessari umræðu er að reyna að máta okkur sjálf í aðstæður þessa fólks, eins og hv. þingmaður er að gera. Viljum við hafa það þannig að fólk þarf að flýja svæði sem það vill búa á? Nei, við viljum það ekki. Það er ekkert í málflutningi okkar í Viðreisn sem teymir okkur í þá átt og allt tal í þá átt að einhverjir tilteknir flokkar eða þingmenn eða eitthvað slíkt, ég veit að hv. þingmaður er ekki að vísa til þess, ég er bara tala um almennt, séu á móti landsbyggð eða á móti einhverjum tilteknum starfsstéttum, það er auðvitað ekki þannig. Svo ég endurtaki svarið: Já, ég er til í að gangast undir það kröftuglega að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að fólk geti búið og unnið þar sem það vill búa og vinna.