152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég kem hérna upp aftur þar sem ég náði ekki alveg að klára allt sem mig langaði til að segja í ræðu minni áðan. Það sem ég var byrjuð að tæpa á þegar tíminn rann út sneri að tilgangi þessarar lagasetningar, ekki frumvarpsins sem við erum að afgreiða hér í dag heldur frumvarpsins sem við erum að breyta í dag. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps um endurskoðun kosningalaga sem skipaður var af forseta Alþingis 24. október 2018. Er frumvarpið lagt fram eins og frá því var gengið af hálfu starfshópsins.“

Í meðförum þingsins voru gríðarlega miklar athugasemdir gerðar við frumvarpið. Meðal umsagna sem skilað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar hún var að fara yfir málið var t.d. umsögn frá Reykjavíkurborg sem taldi fleiri tugi blaðsíðna af athugasemdum. Þess má geta að það er starfsfólk Reykjavíkurborgar sem hefur yfirframkvæmdaumsjón með kosningum á þessu svæði og hefur þar af leiðandi mikla yfirsýn og mikla þekkingu á þeim vandkvæðum sem eru uppi varðandi framkvæmd kosninga. Í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er vont að sjá við fyrstu sýn hvaða athugasemdum frá Reykjavíkurborg t.d. var brugðist við, hverju var breytt og hverju ekki. Þar er ýmislegt sem skiptir talsvert miklu máli. Mig langar til að aðeins að tæpa aftur á greinargerðinni varðandi hugmyndina að baki þessu frumvarpi sem varð að þeim lögum sem við erum núna að breyta. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Vegna tíðra kosninga á undanförnum árum hefur þeim sem að framkvæmd þeirra hafa komið orðið æ ljósari þörf á breytingum. Kjörbréfanefnd Alþingis hefur bent á að huga beri að almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis og hefur hið sama komið fram hjá landskjörstjórn, sem telur einnig að stefna beri að setningu nýrrar heildarlöggjafar um kosningar. Enn fremur hafa borist athugasemdir og ábendingar frá sérfræðinganefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) við kosningalöggjöfina hér á landi og framkvæmd við alþingiskosningar árin 2009, 2013 og 2017 sem aðallega snúa að stjórnsýslu kosninga og vikið verður að síðar. Fyrir Hæstarétti hefur reynt á kosningalöggjöfina vegna stjórnlagaþings og forsetakjörs og umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér úrlausnir vegna málsmeðferðarreglna yfirkjörstjórna. Eftir ákvarðanir Hæstaréttar og úrlausnir umboðsmanns Alþingis hafa vaknað spurningar um gildissvið kosningalaga gagnvart upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og lögum um umboðsmann Alþingis. Þá hefur verið bent á að annars staðar á Norðurlöndum hafi verið tekin upp ákvæði í kosningalög sem heimila að beitt sé nýjustu tækni til að auðvelda alla framkvæmd kosninga, t.d. rafræn eyðublöð og form við ýmsar umsóknir í kosningaferlinu.“

Af þeim nýmælum sem til komu með þessum nýju lögum, þessu frumvarpi, var ýmislegt sem felur í sér gríðarlega miklar breytingar, stórar breytingar og jafnvel flóknar breytingar á okkar kosningalögum og umhverfi. Þótt það sé gríðarlega mikil áhersla í öllu frumvarpinu lögð á að tilgangur laganna sé einföldun stjórnsýslunnar, einföldun framkvæmdarinnar, skilvirkni og annað, er ýmislegt sem var lagt til til einföldunar sem ég óttast að þegar upp er staðið leiði ekki til einföldunar. Sem dæmi má nefna að eitt nýmæli frumvarpsins var að einn lagabálkur skyldi gilda um kosningar í stað fjögurra áður og féllu þá úr gildi lög um kosningar til Alþingis, til sveitarstjórna og lög um framboð og kjör forseta Íslands og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Til að nefna sem dæmi vandkvæði sem koma upp við slíka einföldun þá er fyrirkomulag kjörstjórna ákaflega ólíkt í eldri lögum, ýmist í sveitarstjórnarkosningum eða í alþingiskosningum. Þarna er þessu öllu grautað saman. Þarna kemur upp efni sem mér fannst (Forseti hringir.) mikilvægt og var nefnt áðan varðandi mikilvægi þess að starfsfólkið sem vinnur við kosningar skilji lögin, það viti hver hefur hvaða hlutverk og hver á að gera hvað. Ég held áfram síðar.