152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[19:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta er sannarlega mikilvægt mál sem við erum að ræða hér varðandi krabbameinsskimanir. Ég held að það sé engin þörf á því að fjölyrða um mikilvægi krabbameinsskimana þótt komið hafi verið inn á það í máli þingmanna hér á undan mér. Það sem mig langaði til þess að ræða stuttlega er aðgengi að krabbameinsskimunum. Nú er það svo að á Íslandi er öllum konum á aldrinum 23–64 ára boðið í leghálsskimun, leghálskrabbameinsskimun, og öllum konum á aldrinum 40–74 ára er boðið í skimun fyrir brjóstakrabbameini. En hafa allar konur á Íslandi jafn greiðan kost á því að þiggja þessi boð? Ég tel alveg ljóst að svo er ekki. Þegar ég sjálf fékk í fyrsta skipti fyrir stuttu síðan bréf með boði í brjóstakrabbameinsskimun, var það langt bréf á íslensku. Mér varð hugsað til þess sem hafði verið rætt fyrr á árinu þegar við frambjóðendur vorum í kynningu hjá Krabbameinsfélaginu í aðdraganda kosninga, þar var m.a. rætt um það sem hefur komið í ljós í könnunum og rannsóknum Krabbameinsfélagsins, að þátttaka kvenna af erlendum uppruna er mun minni heldur en annarra. Það er náttúrlega ýmislegt sem skapar ójöfnuð og skapar ójafnt aðgengi. Það getur verið kostnaður, getur verið skortur á upplýsingum, það getur verið skortur á aðgengi að upplýsingum, það getur verið mismunandi heilsulæsi, það getur verið ýmislegt. Það geta verið menningarlegir þættir, félagslegir þættir, menntun, uppruni o.fl.

Ég hef persónulega reynslu af því að vinna með konum af erlendum uppruna sem eru gjarnan frá löndum sem eru talsvert langt frá okkur þar sem menningin hvað þessa hluti varðar er talsvert önnur. Það er ekki eingöngu tungumálið sem kemur í veg fyrir að sumar konur þiggi þetta boð. Það geta verið ýmsar aðrar hindranir. Það getur verið ótti við hið ókunna, við þessar skimanir, vita ekki út á hvað þetta gengur. Bréfið er formlega orðað og er kannski ekki beinlínis á einföldu máli og útskýrir kannski ekki í nógu miklum grundvallaratriðum hvað er að fara að gerast og hvers vegna þar sem við göngum að því gefnu að lesandinn átti sig á því, þetta þykir kannski sjálfsagt í okkar menningu.

Á þessari kynningu hjá Krabbameinsfélaginu var spurt hvort einhver rannsókn hefði verið gerð á þessu sérstaklega, hvers vegna konur af erlendum uppruna mæta ekki í skimanir og hvort það væri búið að upphugsa einhverjar aðgerðir til að leysa þetta. Það er alveg ljóst að Krabbameinsfélagið hefur lengi haft áhyggjur af ójafnri stöðu fólks í tengslum við þessar skimanir og hefur brugðist við með ýmsum hætti. Félagið hefur staðið fyrir tilraunaverkefni um gjaldfrjálsa skimun sem bar árangur, sýndi ótvírætt að kostnaður spilar stóru rullu. Ég borgaði um 5.000 kr. fyrir skimun sem ég fór í um daginn sem er kannski ekki mikil hindrun fyrir mig en það þarf ekkert að hugsa lengi til að átta sig á að það getur verið verulega mikil hindrun fyrir fólk sem þarf að virkilega að velta hverri krónu fyrir sér á milli mánaða.

Það hefur verið ráðist í ýmis verkefni og nýlega var ráðist í mjög fínt framtak hjá heilsugæslunni. Því er lýst þannig á heimasíðu heilsugæslunnar, með leyfi forseta:

„Tólf konur úr íslensku samfélagi deila sögu sinni á ljósmyndasýningunni Er komið að skimun hjá þér? og hvetja þannig aðrar konur til að taka þátt í skimun þegar boð berst. Sérstakt merki hefur verið hannað sem minnir konur á mikilvægi þess að taka þátt í leghálsskimun. Bolir með merkinu eru til sölu í versluninni 38 þrep á Laugavegi og í vefverslun.“

Þá segir á heimasíðu Krabbameinsfélagsins um árangur við að fjölga komum kvenna í skimun, sem er samt heildarfjölgun og snýr kannski ekki beinlínis að konum af erlendum uppruna, með leyfi forseta:

„Árangurinn byggir á fjölbreyttum aðgerðum. Má þar nefna endurskoðun og uppfærslu á kynningar- og boðsbréfum, notkun SMS-skilaboða, kynninga á samfélagsmiðlum og áherslu á skjóta þjónustu […] Skimunin var kynnt sérstaklega fyrir konum af erlendum uppruna með kynningum á samfélagsmiðlum á erlendum tungumálum og samfélagsmiðlar sömuleiðis nýttir til kynningar á skimunum á landsbyggðinni.“

Þessar aðgerðir eru mjög mikilvægar og góðar og gegnar. Ef ég á að tala út frá reynslu minni af vinnu með konum af erlendum uppruna, sem eru upp til hópa flóttakonur, þá eru í þeirra hópi konur sem nota aldrei internet. Það eru konur sem jafnvel kunna ekki að lesa eða eiga erfitt með að lesa, eru ekki vanar því að lesa, hvorki sér til gagns né til ánægju eða annað, ekki vanar því að taka á móti skriflegum upplýsingum, þær eru ekki á samfélagsmiðlum. Mögulega þiggja þær SMS og nota síma og annað en það er spurning hvort eitt SMS geti skýrt nógu ítarlega fyrir fólki af öðrum menningarheimi út á hvað krabbameinsskimun gengur. Ég hef því áhyggjur af því að við séum enn að horfa á þetta með ákveðnum forréttindagleraugum sem gera okkur ókleift að sjá þær leiðir sem þarf að fara. Helsta leiðin til að ná til kvenna sem hafa ekki aðgengi að þessum skriflegu gögnum og upplýsingum á netinu um krabbameinsskimanir er maður á mann samtal. Þá erum við komin út í umræðu um fleiri þætti sem varða aðlögun fólks hér á landi sem ég gæti staðið hér í allt kvöld og alla vikuna og rætt.

Mig langar til að nefna dæmi um eina af þessum 12 konum sem taka þátt í ljósmyndasýningunni, sem ég endurtek að ég tel vera mjög mikilvægt framtak en engan veginn nóg, en það er saga formanns Eflingar, Agnieszku Ewu Ziólkowska, af kynnum hennar af leghálsskimun eftir að hún flutti til Íslands. Hún flutti til Íslands 23 ára gömul, ef ég man rétt. Hennar saga er örstutt og er svona, með leyfi forseta:

„Þegar ég flutti til Íslands liðu nokkur ár áður en ég fór í leghálsskimun. Ég fékk boðsbréfið, en það var á íslensku svo ég skildi ekki hvað stóð í því. Í Póllandi var konum ekki boðið í skimun þegar ég bjó þar, svo þetta var alveg nýtt fyrir mér. Næst þegar ég fékk boð bað ég íslenska vini mína að þýða bréfið fyrir mig“ — Hún hefur þá átt íslenska vini sem gátu þýtt bréfið fyrir hana, en það eiga ekki allar konur af erlendum uppruna. — „og þeir hvöttu mig til að fara. Ég hringdi, en manneskjan sem svaraði talaði ekki ensku og íslenskan mín var ekki nógu góð. Svo ég gafst upp.“

Þarna erum við að tala um konu af erlendum uppruna sem þrátt fyrir allt hefur í rauninni heilmikið aðgengi að þessum upplýsingum, hún á íslenska vini sem aðstoða hana við þýðingu bréfsins og geta útskýrt fyrir henni hvað er að fara að gerast og jafnvel hvetja hana til að fara. En það dugði ekki til. Við getum því rétt ímyndað okkur hvað þarf til til þess að viðkomandi kona, sem veit ekkert hvað svona bréf þýðir og verður jafnvel hrædd þegar hún sér þetta bréf, jafnvel þó það sé þýtt og útskýrt, fari í skimun. Það þarf miklu meira til. Það þarf verulegt átak til að tryggja aðgengi þessara kvenna að skimunum. Í ljósi atburða síðustu vikna og í rauninni þróunar í heiminum á síðustu árum þá getum við búist við því að konum af erlendum uppruna fjölgi, sem þekkja kannski ekki þessar skimanamenningu sem við tökum sem sjálfsagðri. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að huga vel að því að það kerfi sem við bjóðum upp á hérna til að styðja fólk til lífs á Íslandi innihaldi líka menningarlega þætti, menningarlega kynningu, þjálfun, stanslaust menningarlegt samtal til að veita fólki aðgengi að því sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða, sem er gjarnan nýtt fyrir fólki, mjög nýtt. Krabbameinsskimanir eru líka ákaflega viðkvæmt fyrirbæri fyrir mörgum. Þetta er eitthvað sem verður ekki útskýrt í einu SMS, ég ætla bara að leyfa mér að orða það svoleiðis.

Að því sögðu þá fagna ég því frumvarpi sem hér er verið að ræða. Ég velti svo sem fyrir mér mörgum af þeim spurningum sem hafa verið bornar á borð í þessari umræðu varðandi lögmæti þessarar skráningar hingað til og annað, en ég held að með því að auka aðgengi allra kvenna á Íslandi að þessum skimunum verði skráning niðurstaðna líka mun áreiðanlegri og mun gagnlegri fyrir vikið, þannig að ég tel þetta allt spila saman og fréttast í eina heild og hvet hæstv. ráðherra til að hafa þetta í huga í áframhaldandi vinnu.