152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og byrja á því sem hv. þingmaður kom inn á hér í upphafi vegna þess að ég staldraði sjálfur við þetta þunga orðalag „í aðdraganda aðgerðaáætlunar“. Í mínum huga er það sett inn til að gefa til kynna vinnu verkefnahópsins sem mun fylgja því eftir að koma með tillögur að aðgerðum í ramma þessarar stefnumótunar. Það er auðvitað bara þannig með alla stefnumótun og stefnumótunarferli að við höfum einhverja sýn og við mótum markmiðin eins og hér er gert, síðan fylgir því áætlun, annars er hún marklaus, og svo eftirfylgni og mat á árangri. Svo er reynt að bæta um betur. Þannig verður til hringrásarferli eins og við þekkjum sem er svo mikilvægt til að mynda í stefnumótandi umhverfi laga um opinber fjármál. Ég ætla nú ekki að missa mig í þá umræðu en þetta er ekkert ósambærilegt. Ég er mjög jákvæður fyrir þessari nálgun. Mér finnst þetta þunglamalegt orðalag og ég legg til að hv. velferðarnefnd skoði fyrirsögn tillögunnar. Ég lagði ekki til að breyta henni þrátt fyrir að hafa rekið augun í þetta.

Síðan er auðvitað stóra málið til framtíðar þetta með búsetuna, með félagslífið, með félagsskapinn, að rjúfa einmanaleikann sem bara verður til ef við tökum ekki utan um hvert annað í þessu samfélagi. Búsetukjarnar henta mjög vel til þess. Ég bind vonir við, og það kemur fram í tillögunni að hluta til, þar er talað um fjölbreytt búsetuform, að þessi hópur sem við setjum saman taki þetta til skoðunar. Ég held að við ættum að hafa mjög fjölbreytt form (Forseti hringir.) og snúa af þessari vegferð með hjúkrunarheimilin. En vissulega þurfa allir á einhverjum tímapunkti, eldri en við erum að horfa á í dag, á hjúkrunarheimilum að halda.