152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, við þurfum fjölbreytt búsetuúrræði en ég held að ef stjórnvöld tækju sig til og færu í einhvers konar húsnæðisátak hvað þetta varðar, þannig að farið væri í samstarf við verktaka, búinn til einhvers konar sjóður, sérstakur stuðningssjóður til að hægt sé að fara í uppbyggingu íbúða af þessu tagi, myndi sparast gríðarlega á öðrum stöðum. Við vitum að hjúkrunarheimilin eru mjög vanfjármögnuð. Það er bara staðreynd. Við fengum skýrslu frá Gylfanefndinni svokölluðu á síðasta kjörtímabili. Við vitum líka að við erum að borga alveg ofboðslega fjármuni fyrir fólk sem þarf að dvelja á Landspítala sem ætti að fá að vera í vingjarnlegra umhverfi. Við vitum líka að þjónustuþörf hjá þeim sem er einmana, sem verður óöruggur og kvíðinn og dapur heima hjá sér í einverunni verður miklu meiri en ef viðkomandi fær að vera í félagsskap með jafnöldrum sínum. Þau mistök hafa verið gerð í gegnum tíðina að við höfum í rauninni sett rými fyrir þjónustu við einstaklinga í búsetukjörnum alltaf inn í miðja eininguna þannig að fermetraverðið fyrir íbúðirnar sem fólk kaupir sér verður miklu hærra fyrir vikið í staðinn fyrir að láta þann sem veitir þjónustuna standa straum af sínum kostnaði. Ég held því að það væri mjög sniðugt ef stjórnvöld tækju sig til og myndu skipa einhvers konar hóp, starfshóp til að þróa þessa hugsun og búa til sérstakt húsnæðisátak til að það sé einhver verktaki til í að koma með okkur í þennan leiðangur.