152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:53]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóða lýsingu á þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Það felast gríðarleg sóknarfæri og tækifæri í þessari tillögu og ég fagna henni. Hún er auðvitað að bregðast við þeirri staðreynd sem er í rauninni gleðileg, að meðalaldur eða við skulum segja aldur þjóðarinnar er að hækka, lífaldur, og hlutfall aldraðra er að hækka sem má rekja til bættra lifnaðarhátta, bættrar heilbrigðisþjónustu, aukins skilnings á samhengi hlutanna; mikilvægi vatnsneyslu, mikilvægi svefns, mikilvægi hollustumetis o.s.frv. Ég tel að það sé afar mikilvægt í þessu samhengi að breyta þeim viðmiðum sem við höfum látið okkur duga hingað til, sem eru þau að menn skuli hætta að starfa 67 ára eða í síðasta lagi um sjötugt ef það er á vegum hins opinbera, vegna þess að ég tel að það sé alls ekki fyrir þá sem á annað borð eru í skemmtilegri vinnu eða fást við eitthvað skemmtilegt markmið í sjálfu sér að hætta að vinna. Ég held að það sé ákveðin ávísun á að hrörnun og raunveruleg öldrun hefjist og verði hraðari en ella. Ég vil, í ljósi þess að við berum mikið traust til hæstv. heilbrigðisráðherra og vonumst til þess að hann nái að ljúka sem flestum verkefnum í sinni tíð, spyrja hvenær þess megi vænta að þessi stefnumótunarhópur verði skipaður og þessari áætlun hrint í framkvæmd.