152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Ég held að það sé gott sem hv. þingmaður hóf ræðu sína á, að minna okkur jafnframt á að þótt við séum í háfleygum hugmyndum um markmið og sýn er víða pottur brotinn og minnir mann á það að verkefnin eru víða erfið. Við erum með fjölmarga sem hafa þegar fengið færni- og heilsumat en fá ekki inni og þurfa á því að halda. Við megum ekki hoppa af vagninum og inn í þessi markmið og gleyma þeim verkefnum. Við þurfum að leysa það. Reglubundið safnast upp á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fjöldi fólks sem hefur fengið meðferð, er með færni- og heilsumat en fær hvergi inni og teppir þá flæði inni á spítölunum, þetta þekkjum við, og stíflar bráðamóttöku. Þetta eru bara viðvarandi verkefni, dagleg verkefni og við eigum að þakka hv. þingmanni fyrir að minna okkur á það.

Síðan eigum við að horfa til fjölbreyttra lausna og ég þakka hv. þingmanninum fyrir að draga fram hér þetta úrræði sem varð til í tíð þáverandi félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur. Við eigum að horfa til bæði fjölbreytni í uppbyggingu, hleypa fleirum að í fjármögnun, horfa til félagslegu fjármögnunarinnar og horfa til líka fjölbreyttari fjármögnunarforma. Ég horfi til lífeyrissjóðanna í þeim efnum. Ég held að það sé afar góð fjárfesting að horfa í auknum mæli, eins og aðrar þjóðir hafa gert, til fjárfestinga í fasteignum í afmörkuðu formi, eins og hv. þingmaður dregur hér fram. En ég ætla nú, þótt málefnið sé spennandi, að virða ræðutímann, hæstv. forseti.