152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Þetta er af tvennum toga á Suðurnesjum. Það eru annars vegar framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem eru ekki í neinu neinum takti við framlög til annarra stofnana. Ég nefndi það í pontu um daginn að íbúar á Suðurnesjum eru 21% af landsbyggðinni en við fáum bara 14% framlag, þannig að það er greinilega misskipt þarna. Ég vil samt fullyrða að sveitarfélagið og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafa lagt sig í líma við að sinna þjónustunni inni á heimilunum, bæði velferðarsvið í Reykjanesbæ starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur lagt sig í líma við að láta þessa hluti ganga upp. Það er ekkert yfir því að kvarta. Sveitarfélagið sjálft á líka félagslegar leiguíbúðir fyrir aldraða, það er bara talsvert af því. Við höfum staðið okkur vel í uppbyggingu félagslegs húsnæðis í Reykjanesbæ en það vantar meira. Við erum búin að bíða eftir því að loka ákveðnu hjúkrunarheimili og færa það yfir í nýtt, fengum 30 viðbótarrými en leggjum þá niður 30. En við bara bíðum og bíðum og það er mergur málsins. Ef við skoðum svæðið í heild þá er þetta náttúrlega ekki fólki bjóðandi. Það búa þarna 30.000 manns við eina heilsugæslu. Það er óboðlegt. Það er ekki hægt að segja bara: Við erum með stefnu um að leysa það á einhverjum árum. Þær 300 milljónir sem eru komnar í gegnum fjárlög, 200 í fyrra og 100 núna, duga engan veginn til að byggja heilsugæslu. Það þarf mörghundruð milljónir til viðbótar. Það þarf bara að bretta upp ermar og vinna þetta og klára það.