152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir. Það hefur orðið ótrúlegur viðsnúningur á fjármálum Reykjanesbæjar á kjörtímabilinu og verða þeir sem bera ábyrgð á því bara að klappa sér á öxlina fyrir magnað starf. Það var gaman að sjá af því að þarna var um að ræða nánast gjaldþrota sveitarfélag. En mig langar að ræða annað mál og það er Framkvæmdasjóður aldraðra sem hv. þingmaður kom aðeins inn á. Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra og er í vörslu heilbrigðisráðuneytis að því ég best veit. Í sjóðinn hafa verið sóttar til skattgreiðenda umtalsverðar fjárhæðir en úthlutun í verkefni sem Framkvæmdasjóður aldraðra á að standa straum af hefur ekki verið í neinu samræmi við það sem sótt er. Ég er hér með tölur frá 2008–2020, er ekki með 2021 í þessu. Þá er talan sem ríkissjóður eða heilbrigðisráðuneytið liggur á án þess að fara í fjárfestingar hvorki meira né minna en 20 milljarðar. Það eru 20 milljarðar sem þeir hafa ekki ráðstafað út úr þessum sjóði. Þetta er nefskattur sem allir landsmenn þurfa að borga á ákveðnu árabili, frá 16 ára aldri held ég. Af hverju ætli stjórnvöld taki ákvörðun um það að ráðstafa ekki 20 milljörðum á sama tíma og það er verulegur skortur á úrræðum í hjúkrunarheimilum, búsetu. Fólk er geymt (Forseti hringir.) inni á Landspítala í rándýru plássi og ómannúðlegu en 20 milljarðar hvíla bara þarna, eða hvað?