152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Það hefur allt of lítið verið rætt hér í kvöld um efnahag eldra fólks, fjárhag þess og möguleika á að lifa með reisn en ekki búa við fátækt eins og allt of margir gera á þessum árum. Það er sérstakt hvernig stjórnvöld, ríkisstjórnin hefur ákveðið að teikna þetta upp. Hún hækkar frítekjumark launa upp í 200.000 kr. á mánuði, sem er gott. Við viljum endilega auka virkni og það er bara til fyrirmyndar. En það hvarflaði ekki að þeim að hækka frítekjumark vegna lífeyris og maður hugsar: Af hverju skiptir svona miklu máli hvaðan tekjurnar koma? Af hverju getum við ekki bara unnt fólki að eiga meira til hnífs og skeiðar og geta veitt sér og mögulega niðjum sínum ánægjulegt ævikvöld, sérstaklega þegar við horfum á það hvað þetta er í rauninni langur tími og hvað það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að fjölga góðu árunum? Það verður á endanum miklu ódýrara fyrir samfélagið að fjölga árunum þar sem þú getur verið í virkni, þar sem þú getur sinnt þér og náð að hlúa að þér með ríkulegum hætti. Þetta er auðvitað stórt markmið sem við verðum að horfa á.