152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:52]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2022 tóku stjórnarliðar þá ákvörðun að framlag sem hefur verið veitt lengi til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu vegna öldrunar þjóðarinnar og síaukinnar þjónustuþyngdar yrði fellt niður. Þetta eitt og sér er eitthvað sem vinnur gegn öðru hverju markmiði sem er nefnt hér í þessari áætlun eða hvað þetta nú er, tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að honum hugnist kannski að breyta nafninu á þessu plaggi en það er nú þannig að einhverjar nafnabreytingar breyta ekki eðli hlutanna. Ég er satt best að segja orðinn dálítið leiður á þessari nafna- og titlapólitík. Við sáum það hérna á síðasta kjörtímabili að þá tók hæstv. ráðherra upp titilinn barnamálaráðherra og hélt ófáa blaðamannafundi um málefni barna og jú, ég ætla ekki að taka af honum að það voru gerðir ákveðnir mjög tímabærir og mikilvægir hlutir, t.d. að taka pólitíkina út úr barnaverndarkerfinu o.s.frv. En í grunninn skilur hann að mörgu leyti bara eftir sig sviðna jörð í málefnum barna. Við sjáum að biðlistar barna eftir nauðsynlegri grunnþjónustu hafa lengst og meðalbiðtími aukist frá því að ríkisstjórnin tók upp þennan titil barnamálaráðherra. Við sjáum að vist- og meðferðarheimilum er lokað og starfsemi er færð yfir til einkaaðila. Barnahús er löngu sprungið, segir forstjóri Barna- og fjölskyldustofu. Þjónusta er vanfjármögnuð. Það er samþykkt farsældarfrumvarp sem mun, alla vega ef ekkert verður að gert, kannski fyrst og fremst á endanum hafa þær afleiðingar að velta byrðunum yfir á sveitarfélög eins og hefur verið gert í málefnum fatlaðra og fleiri málaflokkum. Ég nefni þetta og fer yfir það bara til að minna á að hlutunum verður ekki breytt og til betra horfs með því einu að breyta einhverjum titlum og nöfnum á þingmálum.

Hér ræðum við þessa tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða og þetta er ofboðslega almennt orðað skjal. Það eru engin mál sem þessu fylgja sérstaklega sem eru í hendi. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að það verði neitt svigrúm í fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að fjármagna einhverjar grundvallarbreytingar þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við aldraða. Við fengum nú forsmekkinn að því í fjárlagaumræðunni þar sem, eins og ég nefni, þessu fasta framlagi var kippt burt á alveg ofboðslega hæpnum forsendum. Það var einhvern veginn réttlætt út frá því að þannig væri hægt að fjármagna betri vaktavinnutíma. En við breytum því ekkert að þjónustuþyngd heldur áfram að aukast og fólki fjölgar og þjóðin eldist. Þetta er ekki þróun sem við stöðvum og við þurfum einfaldlega að sætta okkur við að þetta kostar allt saman peninga. Og hvar fellur þessi tillaga inn í fjármálastefnu stjórnvalda? Þetta er enn ein tillagan þar sem koma fram mörg falleg orð um að bæta og efla og auka hitt og þetta. Samt eru ekki nema nokkrar vikur síðan ríkisstjórnin samþykkti hérna fjármálastefnu, rekstraráætlun sem gerir ráð fyrir alveg gríðarlegu útgjaldaaðhaldi næstu árin. Það er ekki vegna þess að það sé ekki hægt að reka gott velferðarkerfi á Íslandi, góða opinbera þjónustu. Það er bara vegna þess að hér hefur verið stunduð mjög markviss fjársveltistefna sem bitnar á velferðarþjónustu. Þetta gerir okkur stórkostlega erfitt fyrir og þetta mun gera okkur erfitt fyrir þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við aldraða. Staðreyndin er sú að árið 2026 munu tekjur ríkissjóðs verða þær lægstu á öldinni sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta er bara staðreynd og útgjaldasvigrúmið mótast af því. Þetta er einfaldlega fjármálapólitík þessarar ríkisstjórnar og við verðum að taka mið af því þegar við tölum um þetta. Í hvert sinn sem við heyrum falleg orð verðum við að spyrja: Hvaðan eiga peningarnir að koma?

Ég hef svolitlar áhyggjur af því einmitt að hér gerist það eins og í fleiri málaflokkum að einhverri þjónustu verði velt svolítið yfir á sveitarfélögin. Ríkið hreinsi borðið hjá sér og svo sé bara bent á sveitarfélögin og sagt: Sjáið þið, þetta fólk kann ekki að fara með peninga. Í kjördæmavikunni fórum við víða um land, þingflokkurinn, og við heyrðum víða svolítið það sama. Það eru áhyggjur af dvalarheimilum á þessum svæðum, að þjónusta hverfi af því að hún er vanfjármögnuð. Hér er talað um að endurskoða fjármögnunarkerfi vegna dvalar og langtímaumönnunar á hjúkrunarheimilum, gott og vel, og hér var fyrir jól settur auka milljarður í þá þjónustu. En við vitum að það vantar marga milljarða til viðbótar. Hvaðan eiga þeir fjármunir að koma? Það er ekki svigrúm fyrir þetta í núverandi fjármálastefnu, það er alveg á hreinu, nema þá að það sé ekkert að marka t.d. orð hæstv. innviðaráðherra um að setja stóraukna fjármuni í félagslega húsnæðisuppbyggingu, nema það sé ekkert að marka fyrirheitin sem hafa birst í ummælum ráðherra um að það eigi að endurskoða almannatryggingakerfið og gera betur við fólk þar. Þannig að þetta er kannski það sem maður helst veltir fyrir sér og hvernig þessi aðgerðaáætlun — eða þetta er ekki einu sinni aðgerðaáætlun, þetta er tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar, hvernig þetta mun allt saman birtast í fjármálaáætlun eftir nokkrar vikur. Þar minni ég á orð fjármálaráðs sem hefur bent á að það sé ekki samhljómur milli stjórnarsáttmála og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Í þessari stefnu eða þessu plaggi er talið upp ýmislegt. Það er talað um að aldrað fólk eigi að hafa aðgang að þjónustu með velferðartækni eða að það verði aukið við sértækan stuðning og úrræði við aðstandendur sem sinna umönnun, húsnæði hjúkrunarrýma sem standast ekki viðmið um aðbúnað og persónulegt rými verði endurbætt, reglulegt gæðaeftirlit verði með öllum hjúkrunarheimilum, rannsóknastofa HÍ og Landspítala í öldrunarfræðum verði efld. En svo kemur bara hérna í lokin, með leyfi forseta:

„Mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunartillögunnar fari fram þegar aðgerðaáætlun fer í mótun og málsmeðferð, innan verkefnastjórnar sem skipuð verði samkvæmt fyrrgreindum stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Meta þurfi sérstaklega fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög …“

En hvenær mun þetta allt saman liggja fyrir? Er það kannski á þriðja ári kjörtímabilsins, eitthvað svoleiðis? Verður fjármagn fyrir þessu í fjármálaáætlun eða verðum við enn þá að meta það þegar fjármálaáætlun kemur fram eftir nokkrar vikur hvað þurfi að gera? Verðum við ekki bara enn þá að kanna þetta allt saman þá, fyrst við erum ekki komin lengra en að tala um einhverja tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar?

Ég ætla rétt undir lokin að benda á að það er mjög mikilvægt að þjónustan sé veitt á réttu þjónustustigi. Við þekkjum öll hvernig fólk sem ætti með réttu að vera á hjúkrunarheimilum er í hálfgerðri gíslingu á Landspítalanum og þetta stendur þjónustunni þar fyrir þrifum. Svo sjáum við líka, ég var bara að lesa fréttir um þetta daginn, að það eru 144 einstaklingar sem eru vistaðir á hjúkrunarheimilum þótt þeir séu jafnvel miklu yngri en 67 ár. Öryrkjabandalag Íslands heldur á morgun málþing um þetta klukkan eitt á Grand hótel og þar veit ég að hæstv. ráðherra mun flytja tölu. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað eitthvað sem við hljótum að þurfa að líta til. Það er ekki boðlegt að fólk sem er yngra en 67 ára (Forseti hringir.) sé vistað á þessum stofnunum (Forseti hringir.) með tilheyrandi réttindaskerðingu vegna þess að það eru ekki til peningar og vegna þess að það vantar úrræði.