152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði dálítið um fjármögnun þessarar áætlunar, ég átta mig reyndar ekki alveg á titlinum, skil hann ekki alveg. Ég skil ekki þessar fimm línur hérna um mat á áhrifum og hv. þingmaður fór yfir nokkrar þeirra. Ég rek augun í svo margt hérna. Kannski það helsta: „Hjúkrunarheimili uppfylli þá gæðavísa sem embætti landlæknis leggur áherslu á hverju sinni.“ Ég veit að hæstv. ráðherra var á fundi fjárlaganefndar þegar hjúkrunarheimilin komu til fjárlaganefndar og útskýrðu hvernig ráðuneytin gerðu samning við hjúkrunarheimilin um þjónustu sem landlæknir gerði síðan miklu meiri kröfur til, gagnrýndi í rauninni rekstur hjúkrunarheimilanna fyrir lélega þjónustu sem þau eru samt að sinna samkvæmt samningi við ráðuneytin. Það kostar augljóslega miklu meira ef það á að fylgja gæðastöðlum landlæknis. Samt kostar þetta ekkert, samkvæmt þessum kafla um mat á áhrifum. Ég átta mig alveg á því að það getur verið mjög erfitt að meta þennan kostnað en augljóslega mun þetta kosta eitthvað. Þetta er bara eitt af mörgum atriðum sem ég ætla að renna yfir í ræðu minni hér á eftir, þessum augljósu atriðum. Ég skil ekki hvernig við fáum þetta svona í hendur. Ég er hálft í hvoru á því að öll þingmál sem koma frá ríkisstjórninni þurfi í rauninni vera bandormar (Forseti hringir.) og vera fjáraukalög á sama tíma miðað við þann tíma sem þau eiga að taka gildi. (Forseti hringir.) Ef það á að fara að vinna í þeim málum sem fjallað er um í þingsályktun eða lögum ætti bara að fylgja peningur samtímis í fjáraukalögum

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er aðeins ein mínúta í andsvörum og svörum en vegna mistaka í tímastjórnun fékk hv. þingmaður ívið lengri tíma en ætlast var til, en það er ekki fordæmisgefandi.)