152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir tækifærið til að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns sem deilir með mér hugðarefni, sem er geðheilbrigði. Hér fjallaði þingmaðurinn um gífurlega lyfjanotkun í þessum aldurshópi sem við fjöllum hér um og gífurlega geðlyfjanotkun. Af því að við vorum fyrr í kvöld að tala um einhvers konar heildræna skrá þar sem væri hægt að skoða og fylgjast með í forvörn hvernig hlutirnir virka, hvernig heilbrigðiskerfið virkar, fylgjast með útkomunni líka, það er hægt að fylgjast með henni og þróuninni á einhvers konar sjúkdómi eða eitthvað slíkt og þá veltir maður þessu fyrir sér: Hvert er planið þegar einstaklingur er kominn með margar tegundir af geðlyfjum en enga samtalsmeðferð, enga ráðgjöf, enga möguleikar á að sækja sér sálfræðiþjónustu eða af mjög skornum skammti, en er með fullan poka af alls konar lyfjum sem honum er gefið tækifæri á að neyta til að deyfa kvíða, óöryggi, einmanaleika, ótta, ótta við hvað verður, ótta við fátækt og einsemd? Og af því að nú veit ég að hv. þingmaður er sálfræðingur, ekki satt: Getur verið að þessi aldurshópur sé síður að leita sér að einhvers konar þjónustu sálfræðinga?