152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:38]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvar sitt. Já, ég held að það sé alveg pottþétt þannig. Og þegar þú ert kominn á þann stað að þú ert kominn inn á hjúkrunarheimili og kannski geta verið alls konar líkamleg veikindi og ýmislegt sem aftrar því að þú komist til sálfræðings eða leitir eftir því. Svo vil ég líka tala um kynslóðamun og við þurfum að vera vakandi fyrir því að þó að það sé sjálfsagt hjá ungu fólki í dag að fara til sálfræðings er það kannski ekkert endilega hjá fólki sem ólst upp á öðrum tímum þar sem það var ekki sjálfsagður hlutur. Við þurfum líka að nálgast þetta út frá því hvaða hópi við erum að sinna og hvernig er best að nálgast hann. Það er kannski ekki endilega að vera í sálfræðimeðferð, samtalsmeðferð einn með sálfræðingi, kannski fyrir suma en ekkert endilega alla. Við þurfum að greina hvernig er best að nálgast þennan hóp og hvernig er best að eiga samtal um tilfinningar og einmanaleika við þennan hóp. Hvernig er best að þjónustan sé og hvernig ætlum við að mæla það. Við þurfum að byrja frá grunni og skoða þessa hluti og auðvitað að tala við fólkið sem er á hjúkrunarheimilum og spyrja: Hvernig líður þér að taka þessi lyf? Viltu taka lyf? Finnst þér það vera gott eða vont? Við þurfum að fá sjónarmið þeirra sem eru á hjúkrunarheimilunum miklu meira inn í þetta og inn í allt annað sem tengist þeim. Þetta eru náttúrlega svakalegar tölur en kannski er fullt af fólki sem líður bara betur. Við vitum það ekki.