152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:42]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Sem betur fer getum við sem sitjum hér ekki sett okkur í þessi spor alla vega ekki í dag. Ég veit ekki hvort einhverjar hafa verið í þessum sporum. En hvernig er að vera, kannski nauðugur, á hjúkrunarheimili? Nauðung, spáum í nauðung, spáum í lyfjagjöf og spáum í þá stöðu sem þetta fólk er í. og hvernig tilfinning það er. Ég get ekki sett mig í þessi spor en ég get ímyndað mér það sé ekki mjög valdeflandi eða hvetjandi fyrir þig til að hafa einhvern veginn orkuna til þess að leita út á við og leita réttinda þinna. Þarna er rosalega viðkvæmur hópur sem er kominn inn á hjúkrunarheimili og það geta alls konar tilfinningar fylgt því að vera í þessari stöðu. Fólk sem er að eldast og finna verki hér og þar, þetta getur haft mjög mikil áhrif á geðheilsuna. Það væri áhugavert að vita hvernig er að þessu staðið. Hvernig er ákveðið, ef þú ert ekki t.d. með geðgreiningar, hver fær hvaða lyf og hvernig er því fylgt eftir og hvernig er verið að spá í aukaverkanir og hvaða áhrif þær hafa. Við vitum t.d. að ef fólk sem er mjög aldrað og veikt brýtur sig eða verður fyrir annars konar meiðslum eða sjúkdómum þá á það erfiðara með að jafna sig en við hin sem erum kannski ekki komin á þennan aldur. Þá hugsar maður: Hvað með þessi lyf og aukaverkanir þeirra, hvað er í þessum lyfjum? Þannig að ég held að það þurfi að skoða þetta allt upp á nýtt.