152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Staðan er orðin þannig að það er tiltölulega lítill tími eftir af þessu þingi. Er það vegna þess að við höfum verið svo upptekin það sem af er þingi að svona mörg mál eru tekin af dagskrá þingsins? Nei, það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í því að leggja mál fyrir þingið sem við getum tekið umræðu um og tekið afstöðu til. Við sjáum glöggt á niðurstöðunni í dag, eftir þessa þriðju breytingu á málaskránni, raunverulegar áherslur ríkisstjórnarinnar, eins og hér hefur verið bent á. Þetta sýnir að það sem er helst í forgangi hjá ríkisstjórninni er að níðast á þeim sem minnst mega sín í þessu samfélagi.

Ég ætla í fyrsta lagi að nefna neytendur fíkniefna sem eiga heima í heilbrigðiskerfinu en ekki í refsivörslukerfinu, og um það er samhugur. Það hefur verið málflutningur ríkisstjórnarinnar hingað til að málið hafi ekki verið nógu vel unnið. Svo var það aftur ekki nógu vel unnið. Svo tekur ríkisstjórnin það sjálf upp og aftur er hennar eigið mál ekki nógu vel unnið. Þá þarf að skoða það aðeins betur. Þetta er fyrirsláttur. Og hitt sem ber vott um þessa stefnu er að sjálfsögðu frumvarpið sem hér er lagt fram ítrekað (Forseti hringir.) í sífellt viðurstyggilegri mynd, sem gengur fyrst og fremst út á það að brjóta á útlendingum sem hingað leita í neyð.