152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

viðskiptaþvinganir vegna kjörræðismanns Hvíta-Rússlands.

[15:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Undanfarið hafa verið fluttar fréttir af tengslum íslenskra stjórnvalda við hvít-rússneskt atvinnulíf og þá sérstaklega við auðjöfurinn Alexander Moshensky, en hann hefur verið einn helsti stuðningsmaður einræðisherrans Lúkasjenkós og greitt leiðina fyrir hann í valdastóla. Nú hefur verið upplýst að hann sé stórtækur í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, nánar tiltekið með fisk frá Íslandi. Hann hefur auk þess verið skipaður kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi.

Á undanförnum árum hefur Hvíta-Rússland verið beitt viðskiptaþvingunum af hálfu ESB vegna ólýðræðislegra athafna stjórnvalda þar í landi. Lúkasjenkó er oft kallaður síðasti einræðisherra Evrópu og hefur reyndar sjálfur lýst sér sem slíkum. Ítrekað hefur verið lagt til að umræddur auðjöfur, Alexander Moshensky, verði settur á lista þeirra sem beittir eru viðskiptaþvingunum en ítrekað hefur nafn hans verði fjarlægt af umræddum lista. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi hafa fullyrt að Ísland hafi fengið umræddan kjörræðismann sinn, Moshensky, fjarlægðan af umræddum listum. Natalia Kaladia, ein þekktasta stjórnmálakona stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi, hefur haldið því fram að hún hafi margar heimildir fyrir því að Ísland hafi beitt sér fyrir því að Moshensky verði hlíft við slíkum aðgerðum. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra haldið því fram að ráðuneyti hennar hafi ekki gert kröfu um að Moshensky yrði fjarlægður af umræddum lista, en það er ljóst að sú umræða er þrálát og margir sem telja sig hafa sannanir fyrir því.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað hún sé að gera til þess að upplýsa um afskipti starfsmanna íslenskra sendiráðsins í Brussel og annarra af setningu þessara viðskiptaþvingana.