152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hitti hér naglann á höfuðið að mínu mati. Það er augljóst að tilgangurinn með því að taka þessi ákvæði upp í sérfrumvarpi en ekki hið brýna ákvæði sem heimilar flóttafólki frá Úkraínu að vinna þrátt fyrir að fá ekki það dvalarleyfi sem því ber, er sá að ríkisstjórnin ætlar að notfæra sér flóttafólk frá Úkraínu og bráða neyð þess til að ná í gegnum þingið frumvarpi sem ítrekað hefur verið hafnað vegna þess að það brýtur mjög alvarlega á réttindum flóttafólks. Ég spyr: Ætlar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að taka þátt í þessu og leyfa hæstv. dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um breytingar á lagabálki sem heyrir undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra til að geta komið sínum mannréttindabrotum að og komið þeim í gegnum þingið í þúsundustu tilraun?