152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir svarið og ég held að ég sé honum enn og aftur sammála. Þessi góði ásetningur sem þarna er að baki kallar fram ákveðin hugrenningatengsl við aðra hluti sem ætlaðir eru fullorðnum en eru kannski með alls konar ávaxtabragði. Ef ég rifja upp mín unglingsár, þegar ég fór að bragða áfengi í skjóli nætur, einhvers staðar í leyni, þá var það nú bragðlaust áfengi sem keypt var á svörtum markaði, en það var sannarlega blandað saman við drykki sem höfðu meira heillandi bragð. Það voru drykkir með ávaxta- og sykurbragði sem fengust bara í Bónus og ég hefði aldur til að kaupa og ekkert mál. Ég man ekki hver það var sem nefndi hér áðan möguleikann á því að ef börnin ætluðu að fara að leika sér að nikótínpúðum myndu þau bara dýfa því í Fanta, ef það er það sem þetta snýst um. Það er áhugaverður punktur. Nú er það þannig með önnur vímuefni í okkar samfélagi, og þá er ég fyrst og fremst að tala um lögleg vímuefni á borð við áfengi, að þau eru líka til með ýmsu bragði. Þar eru svipaðar reglur sem gilda og lagðar er til í frumvarpinu og ég fæ ekki séð að mikill ágreiningur sé um, varðandi aldurstakmörk, varðandi takmörk á sölu og sýnileika og annað. Mig langaði bara að fá innsýn hv. þingmanns í það hvort það hefði einhverju breytt, hvort það hefði verið jákvæð viðbót við takmarkanir á aðgengi barna að sykurdrykkjum sem eru áfengir, að banna tilteknar bragðtegundir.