Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Háskóladagurinn var haldinn á Akureyri um síðastliðna helgi og kynntu þar allir háskólar á landinu sitt úrval námsframboðs. Ljóst er að námsframboð á Íslandi er í heild virkilega fjölbreytt og gæðin mikil. Oft er rætt á Alþingi um aðgengi að háskólanámi um land allt en varðandi það sem snýr að hefðbundnu bóknámi þá er þar mun meira í boði fyrir íbúa á landsbyggðinni en nám sem krefst verklegrar þekkingar og þjálfunar. Hér þarf að leita lausna, t.d. með auknu samstarfi meðal íslenskra háskóla, til að brúa þetta bil. Ungu fólki á landsbyggðinni verður að standa til boða að mennta sig í tæknigreinum nær heimabyggð. Vert er að nefna að kallað er verulega eftir iðnmenntuðum einstaklingum úti á landi, en næstum hvert sem för minni er heitið um landið er skýrt ákall eftir iðnmenntuðum einstaklingum, oft í tugum talið. Eftirspurn eftir háskólamenntuðu fólki á vinnumarkaði hefur svo verulega aukist á undanförnum árum og á bæði við í einkageiranum og opinbera geiranum. Sérstaklega verður að nefna aukningu á eftirspurn háskólamenntaðra í einkageiranum. Ekki eru neinar vísbendingar um að þessi þróun verði eitthvað öðruvísi næstu ár.

Það sem ég kalla eftir og langar að opna hér á umræðu um er að tekin verði afstaða til þess hvort með einhverjum hætti eigi að stýra aðgengi að námi til að efla aðgengi og gæði náms, t.d. með fjölda nemenda á námsbrautum. Það eru því ýmis tækifæri fólgin í því að sníða fjármögnunarmódel háskólanna þannig að það styðji við stefnu háskólanna um fjölda nemenda og aukin gæði námsins og ekki síst til að mæta eftirspurn atvinnulífsins víða um landið eftir háskólamenntuðu starfsfólki.