152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég veit, við komum svolítið oft upp í fundarstjórn. Ísland og reyndar Evrópa öll stendur frammi fyrir einni stærstu mannúðarkrísu frá síðustu heimsstyrjöld. Milljónir, aðallega börn og konur, hafa flúið stríðið í Úkraínu í leit að skjóli. Þegar hafa hundruð komið hingað á hjara veraldar og við megum búast við því að ef stríðið dregst á langinn muni þúsundir flóttamanna sækja hingað. Það er ekki auðveld framkvæmd að takast á við slíka mannúðarkrísu. Mikilvægt er að samfélagið allt taki þátt í því og þegar vandamál koma upp eigum við ekki bara að einblína á að gagnrýna heldur líka að finna lausnir og koma þeim í framkvæmd.

Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir gaf okkur gott dæmi um það hér áðan að sú staða hefði komið upp að flóttamenn höfðu ekki aðgang að þvottaaðstöðu og hvernig frábær hópur sjálfboðaliða fann lausn á því með aðstoð félagasamtaka sem höfðu iðnaðarþvottahús sem gat tekið að sér að þvo. Þetta er að sjálfsögðu ekki langtímalausn, hún er tímabundin. Já, það er nefnilega ekki hægt að ætlast til þess að jafn stór og viðamikil framkvæmd og sú að taka á móti þúsundum manna á nokkrum vikum geti gengið snurðulaust fyrir sig.

Það hefur verið fallegt að sjá hversu margir eru að leggja hönd á plóginn til þess að grípa þá bolta sem annars hefðu fallið til jarðar. Það hefur einnig verið virkilega uppörvandi að sjá öll þau fyrirtæki og þá fjársterku einstaklinga sem hafa látið gott af sér leiða til að styðja þetta mikilvæga starf. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt, þegar svo margir eru að leggja hönd á plóginn, að við samhæfum þær aðgerðir og vinnum öll saman að því að tryggja að þessu fólki sé tekið opnum örmum.