152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera stöðu fjölmiðla að umtalsefni hér í störfum þingsins. Hún er auðvitað ekki góð, eins og við þekkjum, í rekstrarlegu tilliti í það minnsta. Þetta höfum við rætt fram og til baka undanfarin ár. Við erum búin að tala um rekstrarstöðu þeirra og við erum líka búin að tala um mikilvægi þeirra í samfélaginu út frá fréttaöflun þeirra. Þeir hafa margoft sett mál á dagskrá sem áttu að liggja í þagnargildi en komu sem betur fer upp á yfirborðið vegna þess að fjölmiðlarnir voru þó nógu sterkir til að sinna aðhaldshlutverki sínu. Þetta í sjálfu sér þarf ekkert að ræða mjög mikið meira. En það sem ég vildi gera hér að umtalsefni er að ef fjölmiðlarnir eru veikir rekstrarlega þá veikir það möguleika þeirra til þess að hafa aðhald með stofnunum samfélagsins. Við þingflokkur Viðreisnar höfum lagt fram þingsályktunartillögu þar sem við leggjum til að það verði farið í heildarskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla og ástæðan fyrir því er einföld. Hún er sú að allar þær hugmyndir sem yfirleitt koma fram um stöðu á fjölmiðlamarkaði virka þannig að það kemur einhvers konar bútasaumur út úr því. Við erum annaðhvort að tala um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði eða stöðu einkarekinna miðla eða þá það hvernig við ætlum að skattleggja netrisa og samfélagsmiðla. Þetta þarf hins vegar allt að taka saman vegna þess að ein einingin hefur auðvitað áhrif á þá næstu sem síðan hefur áhrif á þá þriðju. Það hafa áður verið stofnaðir starfshópar, nefndir og ráð til þess að fara yfir þetta, margoft meira að segja held ég, en vandinn er sá að þetta er svo síkvikt umhverfi, bæði út frá rekstrarlegum forsendum og líka út frá tækniþróun og öðru slíku, að ef það koma niðurstöður úr þeirri vinnu þá þarf að innleiða það sem úr henni kemur. Á það hefur talsvert skort. Ég hef tekið eftir því að hæstv. ráðherra fjölmiðlamála hefur talað talsvert um fjölmiðla, bæði stöðu ríkisins á auglýsingamarkaði sem og stöðu einkarekinna miðla, bága stöðu þeirra. Nú vonumst við til þess að hægt verði að fara í þessa heildarendurskoðun (Forseti hringir.) á rekstrarumhverfi fjölmiðla og ég hvet þingheim og almenning til að kynna sér þá þingsályktunartillögu sem núna liggur fyrir þinginu.