152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætlaði að tala um allt aðra hluti, en annan daginn í röð ætla ég nú að taka boltann upp þar sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir skildi hann eftir. Það er alveg rétt að þegar við hugum að neyslustýringu, sérstaklega til að auka lýðheilsu í landinu, þá þurfum við hafa nokkur sjónarmið meðferðis. Í fyrsta lagi þurfum við náttúrlega að spyrja okkur: Eru aðgerðirnar líklegar til þess að skila þeim árangri sem við ætlum okkur að ná? Í öðru lagi þurfum við að gæta að ákveðnu meðalhófi. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er í rauninni ótrúlega furðulegt að það skuli gilda ein lög um verslanir sem hafa kennitölur eða sem starfa erlendis og önnur um þær sem starfa á Íslandi. Það hljóta allir að sjá það í hendi sér að sömu reglur eiga að gilda um þessa tvo aðila. Hér er um að ræða netsölu á áfengi, held ég. Í þriðja lagi, þegar kemur að vöru sem er fyrst og fremst nýtt til skaðaminnkunar, til að fá fólk til að hætta að reykja tóbak og fara yfir í nikótínvörur sem eru skárri, þótt vissulega þurfi að huga að því að ungt fólk sé ekki að óþörfu að nota þetta, þá þurfa menn aðeins að gæta sín. Ef menn ætla að fara að banna einhverjar ákveðnar bragðtegundir og komast að vísindalegri niðurstöðu um það hverjar eru líklegar til að falla í kramið og hverjar ekki, þá eru menn komnir á hálan ís. Og ráðherra til viðvörunar þá var það reynt fyrir 100 árum, þegar menn leyfðu áfengi aftur og fólu einhverjum grafískum hönnuði að búa til eins ljótan miða og hægt væri til að halda fólki frá því að drekka brennivín, og úr varð svarti miðinn frægi — sú tilraun mistókst.