Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:58]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Undanfarið hefur verið mikil umræða um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Því miður er nýlegt dæmi um við hvaða aðstæður fólk á landsbyggðinni býr en hugsanlega hefði þar mátt bjarga lífi lítils barns ef betur væri búið að heilbrigðismálum úti á landi, en enginn læknir var staddur í þorpinu. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð. Heilbrigðisþjónustu hefur hrakað jafnt og þétt á landsbyggðinni, þjónustan farið lengra og lengra frá fólki sem býr í þessum byggðarlögum, fólki sem vinnur í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar eins og fiskvinnslu, veiðum, raforkuframleiðslu, flutningi raforku, í ferðaþjónustu sem er vaxandi grein. Þetta fólk aflar mikils gjaldeyris í þjóðarbúið og skapar fullt af fólki lífsviðurværi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að Austurland aflar mikils fjár í ríkiskassann. Samkvæmt skýrslu sem kom frá Háskólanum á Akureyri um útgjöld og tekjur ríkisins í Norðausturkjördæmi árið 2013 kom í ljós að Austurland aflaði tekna til greiðslu allrar þjónustu og framkvæmda á Austurlandi og meira en það. Stór hluti teknanna fer því í að halda uppi starfsemi í öðrum kjördæmum og ég ætla aftur að leyfa mér að nefna Reykjavíkurkjördæmin. Að mínu viti á það að vera skýlaus krafa að íbúar á Austurlandi fái að njóta þeirra tekna sem þeir afla til innviðauppbyggingar á Austurlandi. Það á t.d. við um uppbyggingu samgangna til að auðvelda fólki að komast í nærþjónustu. Það á við um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á Austurlandi og annarra hluta og annarrar þjónustu ríkisins. Einnig þarf að tryggja að sveitarfélög fái tekjur til að efla og framkvæma þá þjónustu sem ríkið hefur sett í fang þeirra.