152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst nálgun hv. þingmanns skemmtileg varðandi sagnfræðiáhuga Íslendinga sem endurspeglast í stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er þessi algjöri skortur á framtíðarsýn á undirbúningi á stefnumótun fyrir fram. Hér er stefnan mótuð eftir því sem hlutum vindur fram og jafnvel eftir á. Við erum að ræða í dag tilfærslur fjármuna vegna breytinga sem ríkisstjórnin ákvað að fara út í akkúrat algerlega óundirbúið, algerlega án þess að búið væri að gera nokkurs konar greiningu eða úttekt á því hvaða afleiðingar það hefði, hvort það væri skynsamleg ákvörðun og því síður á því hvað það myndi kosta.

Það sem ég velti síðan fyrir mér er að nú erum við að ræða frumvarp til fjáraukalaga þar sem um er að ræða ákveðnar leiðréttingar á þeim fjárlögum sem þegar hafa verið samþykkt vegna þess sem gerst hefur. Eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir benti á áðan eru nú þegar augljósir margir þættir, sem við vitum ekki bara af í dag, heldur vissum líka af fyrir mánuði, og þeim þáttum fjölgar sem munu leiða til þess að þessi fjármálaáætlun og þessi fjárlög munu ekki standast. Nú er ekki mikið eftir af þessu þingi þegar á heildina er litið og margt sem liggur fyrir. Það sem mig langaði til að heyra afstöðu hv. þm. Loga Einarssonar til varðar afleiðingarnar af þessari viðbragðsstefnu ríkisstjórnarinnar í ljósi þeirra áhættuþátta sem við erum nú þegar búin að sjá, þeirra þátta sem munu hafa áhrif á þetta og þeirrar staðreyndar að við munum líklega ekki bregðast við því áður en þessu þingi lýkur. Hverjar verða afleiðingarnar af þessu?