152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get kannski ekki sagt að svar hv. þm. Sigmars Guðmundssonar hafi komið mér mikið á óvart. En ég velti fyrir mér stefnu þessarar ríkisstjórnar og meðvitund hennar gagnvart efnahagsmálum og síðan það hvernig stefna ríkisstjórnarinnar endurspeglast eða endurspeglast ekki í þeim fjárlögum og fjáraukalögum sem lögð eru fram í ljósi þess að hv. þingmaður sér þetta sem einu lausnina, og hún er kannski ekki líkleg til að verða að raunveruleika með þessa ríkisstjórn við stjórnvölinn. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann sér fyrir sér með afleiðingarnar af þessu stefnuleysi, af þessu ábyrgðarleysi og skorti á lausnum í þessu ástandi.