152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er ekki viss um að við séum sammála um allt þegar kemur að umsvifum ríkisins og aðhaldi í ríkisútgjöldum og öðru slíku. En ég velti fyrir mér hvort okkar sé meira sammála ríkisstjórninni þar sem það eru svolítið misvísandi skilaboð sem við fáum frá henni varðandi það hvort hún vilji stunda aðhald í ríkisútgjöldum eða ekki. Annars vegar heyrum við yfirlýsingar þess efnis að það þurfi að minnka ríkisbáknið og annað og það þurfi alltaf að vera með aðhald og alltaf þurfi að vera að skera niður. Það er svona ákveðinn taktur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur tamið sér í sinni pólitísku ræðu yfir höfuð og almennt og hefur gert um langa hríð. Þessi hugmyndafræði virðist ekki birtast í fjárútlátum ríkisstjórnarinnar nema að því marki sem snýr að akkúrat því að skerða réttindi þeirra sem minna mega sín, eða veita fjármuni í hluti sem kannski eru ekki akkúrat það sem mestu máli skiptir í þessu samfélagi, alla vega að mínu mati og minna skoðanasystkina sem leggjum áherslu á félagsleg úrræði og annað. Það er einmitt gott dæmi sem þingmaðurinn nefndi hér áðan í tengslum við útlendinga, ekki hafa t.d. verið gerðar neinar tilraunir til þess að skera niður í meðferð hælisumsókna en þar er verið að eyða milljónum á milljónir ofan, milljörðum á milljarða ofan, í raun eingöngu til að reyna að finna leiðir til þess að vísa fólki úr landi í stað þess að hjálpa því.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í þetta aðhald í útgjöldum, út í þessa tillögu, það sem við erum að horfa á hér. Við sjáum glöggt í þessum breytingum sem hafa verið gerðar á ráðuneytunum (Forseti hringir.) að það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að gæta aðhalds í ríkisútgjöldum þegar kemur að hlutum sem skipta minna máli. Ég velti fyrir mér hver afstaða hv. þingmanns er hvað þetta varðar.