152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[11:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Áhugi þingmanna á að ræða þau mál sem borin eru á borð kemur hæstv. forseta á óvart. Það skýrir kannski hvers vegna tíminn hefur ekki verið nýttur frá því að við hófum þingstörf á þessu ári heldur erum við búin að bíða dögum og vikum saman eftir þeim málum sem ríkisstjórnin hafði sagst ætla að leggja fyrir þingið fyrir löngu. Það er ljóst að ríkisstjórnin bjóst við því að geta lagt fram þau mál sem hún vill ná í gegn án nokkurrar umræðu í þinginu. Þau taka ekki þátt í umræðum og ætlast til þess að minni hlutinn á þinginu sé hér langt fram eftir nóttu til að ræða mál sem við höfum haft þrjá, fjóra mánuði til að gera nú þegar. Hvað var að gerast á þessum þremur til fjórum mánuðum? Við höfum verið að bíða eftir þessum málum. Nú á að hirta okkur fyrir að vilja ræða þessi mál á hinu háa Alþingi, sem er hinn lýðræðislegi vettvangur þar sem við ræðum lög áður en þau eru sett og áður en þau eru samþykkt.