152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[11:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp og taldi sig hafa afhjúpað einhvers konar leikrit eða óheiðarleika af hálfu minni hlutans þar sem við séum að kalla eftir stjórnarmálum, en það væri kannski eðlilegt af okkur að vera ekkert að kalla eftir þeim. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að við vissum að þetta myndi fara á þennan veg. Við vissum að þetta myndi fara svona vegna þess að það er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarmeirihlutinn dregur lappirnar í því að leggja fram þau mál sem hann ætlar sér sannarlega að gera vegna þess að það á að koma þeim í gegn í einhverjum hvelli í lok þings. Þetta er ekki að gerast í fyrsta skipti og þetta er ekki boðlegt. Þegar mér sem einstæðri móður datt í hug að bjóða mig fram til þings var mér bent á að Alþingi væri ekkert sérstaklega barnvænn vinnustaður. Það er hárrétt fyrir okkur sem erum í minni hluta vegna þess að svo virðist sem þau sem eru í meiri hluta hafi engum skyldum að gegna gagnvart þinginu aðrar en að mæta á nefndarfundi. (Forseti hringir.) Þau mæta ekki hérna í umræður og það þykir í góðu lagi að láta okkur í minni hlutanum vera hérna fram eftir nóttu að ræða þeirra mál og þau taka ekki einu sinni þátt í umræðum.