152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er svo sem ekki ókunnugleg staða sem þingið er í. Hún hefur verið hér áður og hún hefur verið kölluð réttum nöfnum af stjórnarandstöðuþingmanni sem kom hér upp áðan og talaði um að ef þetta væri málþóf væri þetta málþóf. Talað er um hefðir og að það sé ekki hefð að biðja um lengd þingfundar í upphafi þingfundar. Ég kannast nú ekki við þá hefð. Ég er búinn að vera hér frá 2007 og hef marga fjöruna sopið þegar kemur að þessum málum.

Það er líka talað hér um að það sé fyrir neðan virðingu Alþingis að tala fram á nótt. Ég held að það sé ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að átta sig á því og láta taka saman hvað hefur langur tími farið á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum í fundarstjórn forseta. Hvað erum við búin að eyða löngum tíma (Gripið fram í.) hér í dag? Það er ansi langur tími þar sem forseti býður, eins og fram hefur komið, nú reglulega upp á fundi með þingflokksformönnum þar sem menn geta komið skoðunum sínum og sjónarmiðum á framfæri.

En þetta leikrit sem hér er sett af stað er auðvitað ekki til þess fallið að auka á virðingu Alþingis. (Forseti hringir.) Það er nákvæmlega það sem stjórnarandstaðan er að gera, (Forseti hringir.) hún er að draga úr virðingu Alþingis með þessum málflutningi sem á sér (Forseti hringir.) stað undir þessum dagskrárlið.