152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan þá er þetta ákvæði ekki í samræmi við þá þróun sem hefur verið í öðrum löndum. Ég skil spurningu þingmannsins þannig hvort við getum verið með eitthvað sem stangast á við það allt saman. Ég fæ ekki séð annað en að við séum akkúrat að gera það hér, að setja löggjöf sem stangast á við þá þróun sem er í gangi.

Mig langar til þess að ítreka það hversu mikið persónulegt inngrip í einkalíf fólks þetta ákvæði er. Þetta er gríðarlega mikið af upplýsingum. Þetta eru ofboðslega mikil smáatriði í samskiptum fólks sem þarna er heimilað að skrá og skylt að geyma. Það má nefna t.d. að tölfræði frá Danmörku sýnir að hver einasti einstaklingur er skrásettur vegna fjarskipta einhvers konar að meðaltali 225 sinnum á dag eða á sex mínútna fresti. Þetta eru talsvert miklar og nákvæmar upplýsingar um athæfi okkar. Meira og minna öll samskipti okkar og meira og minna allt sem við gerum fer í gegnum fjarskiptabúnað nú til dags. Þetta er gríðarlega mikil og nákvæm skráning á öllu sem við gerum og það hefur ekki verið sýnt fram á að alvarleiki þeirra brota sem hægt er að rannsaka með þessum upplýsingum eða sem hefur tekist að upplýsa sé í nokkru samræmi við áhrifin sem þessi gagnageymd hefur. Og þetta er sannarlega eitthvað sem lýtur að mannréttindum, fyrst hv. þingmaður átt í basli með að sjá mannréttindavinkilinn þarna. Fyrir mér er hann ansi augljós.