152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og annarra sem hafa komið hingað upp og tekið til máls. Það getur sannarlega tekið tíma að vinna mál vel og ýmislegt getur valdið því að mál tefjist. Hins vegar er það sem hefur verið haldið fram hér í þingsal í dag og í fjölmiðlum undanfarið af hálfu hæstv. ráðherra eitthvað sem ég tel ekki líðandi og það er að þinginu er kennt um bæði viljaleysi og bókstaflega aðgerðaleysi og trassaskap ríkisstjórnarinnar. Ég vil bara segja það um frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna að þetta er mál sem hefur verið vel unnið hér í þinginu. Ef við einhvern er að sakast varðandi það að þetta skuli ekki vera á dagskrá þá er það alls ekki þingið. (Forseti hringir.) Það getur verið hver sem er annar og við vitum kannski alveg hver það er.