152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði hérna áðan varðandi það að sannarlega þarf að skoða mál ofan í kjölinn, þau geta tafist af ýmsum ástæðum og sú skoðun getur tekið langan tíma, sérstaklega þegar hún þarf að vera vönduð. Hins vegar hafa misvísandi skýringar verið gefnar af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra hennar um það hvers vegna þetta mál hefur hreinlega ekki verið afgreitt frá þinginu fyrir löngu því að mikil vinna hefur átt sér stað.

Ég vil hins vegar líka taka undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni þegar hann nefnir aðgerðir sem boðað hefur verið til og ekkert bólar á. Þá veltir maður fyrir sér hvar sökin á því liggur og maður veltir fyrir sér hvort hæstv. ráðherrar vilji sömuleiðis kenna þinginu um að ekkert sé að gerast í þeim efnum. Ég vil bara taka undir það sem hv. þingmaður sagði hér áðan varðandi Framsóknarflokkinn sérstaklega. Það er alveg ljóst á báðum þessum málum og fleiri málum að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) er einn flokkur í fjölmiðlum og í kosningabaráttu (Forseti hringir.) en einhver allt annar flokkur þegar komið er hingað inn á þing. (Forseti hringir.) Allt í einu gerist ekki neitt af því sem lofað var.