152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málarekstur ráðherra fyrir dómstólum.

423. mál
[17:24]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst þetta gríðarlega áhugaverð spurning og svar hæstv. forsætisráðherra kom að einhverju leyti á óvart og að öðru leyti ekki en voru ákveðin vonbrigði, alla vega ef ég tala fyrir sjálfa mig. Ef ég skil þetta rétt þá er í rauninni ekki neitt ákveðið mat sem fer fram. Það er í rauninni ekki tekin kerfisbundin strategísk ákvörðun um það hvort þetta sé gert. Þetta hljómar eins og það sé svolítið tilfallandi. Þá er alveg ofboðslega erfitt að skilja þetta öðruvísi en sem ákveðna afstöðu ríkisstjórnarinnar, og þá tiltekins ráðherra, gagnvart borgurunum. Mig langar bara til að taka undir það sem hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna varðandi það valdaójafnvægi sem er í gangi þegar einstaklingur verður fyrir réttarbrotum af hálfu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og hversu stór ákvörðun það er, (Forseti hringir.) hversu stór þung og afdrifarík ákvörðun það er af hálfu (Forseti hringir.) stjórnvalda að fara í mál við borgara þessa lands sem eru bara að reyna að bera hönd fyrir höfuð sér.

(Forseti (LínS): Hv. þingmenn, ræðutíminn er ein mínúta.)