152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Hellisheiði.

428. mál
[18:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir virkilega áhugaverða fyrirspurn. Ég játa að ég hef persónulega aldrei heyrt þá hugmynd að borga göng í gegnum Hellisheiði. Það vakti athygli mína sem gerðist í vetur, nú hefur hæstv. ráðherra nefnt að heiðinni hafi verið lokað 19 sinnum það sem af er ári og ekki er mikið liðið af árinu þannig að það er ansi sláandi. Það var ekki bara Hellisheiðin sem var gjarnan lokuð heldur kom fyrir að loka þurfti ýmsum hjáleiðum vegna veðurs og færðar. Nú held ég að vegna loftslagsbreytinga og annars þá getum við gert ráð fyrir að þetta sé ekki að fara að breytast og því er augljóslega tímabært að hugsa um framtíðarlausnir til að halda þessari mikilvægu umferðarleið opinni. Mig langaði kannski að freista þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort farið hefur fram einhver úttekt á því (Forseti hringir.) hver hagkvæmnin væri af því að fara í þessa framkvæmd. (Forseti hringir.) Ég ímynda mér að þetta sé kannski með stærri gangaframkvæmdum sem ég veit um og ég er mjög forvitin um þetta mál.