152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[19:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bara þakka aftur fyrir þessa umræðu. Það er alveg ljóst að hennar er þörf. Slíkur er misskilningurinn sem kom hér fram greinilega, en það hefur kannski ekki verið nægilega mikið upplýst um þetta. Það er spurt hér hver pólitík stjórnarinnar sé varðandi móttöku flóttamanna og slíkt. Þar er pólitíkin einfaldlega sú að hraða málsmeðferð og gera kerfið skilvirkara og það er ekki síst eftir að umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við langan afgreiðslufrest stofnunarinnar sem við sækjum þangað. Þetta hefur síðan ekkert að gera með samning við Rauða krossinn og þá lögbundnu þjónustu sem ráðuneytið þarf að standa fyrir að sé veitt gagnvart talsmönnum þjónustu við það fólk sem hér á undir. Það er í góðum farvegi.

Burt með báknið og það gengur hægt í útlendingamálum — ja, ég fór hér ágætlega yfir það hvað er verið að gera. Það er talað um að þetta snerti fleiri stofnanir en Útlendingastofnun og það er alveg rétt. Þess vegna erum við á sömu vegferð í sýslumannsembættunum og nákvæmlega erum það ráðuneyti sem sennilega er komið hvað lengst í því að innleiða rafræna þjónustu og stafræna og erum algerlega á fullu í þessum undirbúningi. Það er hægt að gera allt algerlega sjálfvirkt í umsóknarferlinu — já, ég sagði ykkur áðan að 50% af öllum umsóknum verða rafræn á þessu ári og 100% á því næsta. Þannig að þetta er allt saman að gera sig og allt rétt sem hér var bent á. Það var líka bent á þetta mikla álag sem hefur verið á stofnuninni og ég vil nota tækifærið og nefna þá í leiðinni ómálefnalega gagnrýni margra þingmanna á þessa stofnun og starfsfólkið sem þar vinnur og hef óskað eftir því að fólk beini frekar spjótum sínum að mér en stofnuninni sem ábyrgðaraðila fyrir þessu vegna þess að mér hefur fundist þær athugasemdir oft vera ósanngjarnar í garð starfsmannanna. (Forseti hringir.)

Svo er það þetta með SMS-skilaboð. Ég ætla ekkert að útiloka að það gerist ekki mistök við afgreiðslu hjá þessari stofnun eins og getur gerst (Forseti hringir.) hjá okkur öllum í okkar daglega lífi. En nákvæmlega þetta dæmi sem var tekið, því mun verða eytt út með þeirri þjónustu sem verður í boði (Forseti hringir.) þar sem umsækjandi sjálfur heldur utan um allar upplýsingar og er í rauntíma að vinna með sín mál.