152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún kemur hér inn á mjög brýnt erindi. Ég hef tekið þetta til mín alveg sérstaklega til umfjöllunar í ráðuneytinu og fundað bæði með fangelsismálastjóra og hitt fulltrúa félags fanga á Íslandi. Það er örugglega margt sem við þurfum að gera á þessum vettvangi til að bæta umhverfi fangavarða og ekki síður fanganna sjálfra.

Á síðustu árum hefur dómsmálaráðuneytið ásamt þeim ráðuneytum sem einnig hafa aðkomu að starfi með föngum verið með málefni þeirra og fangelsanna til skoðunar. Að mörgu er að hyggja, eins og ég segi, en nefnd á vegum Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, gerði úttekt hér 2019. Í kjölfarið var stofnað til starfshóps um heilbrigðisþjónustu í fangelsum sem leiddi m.a. af sér að það var stofnað þverfaglegt geðheilsuteymi til að veita markvissa, samfellda og einstaklingsmiðaða geðheilbrigðisþjónustu við fanga meðan á afplánun stendur. Þetta hefur gefið alveg sérstaklega góða raun og mjög góð reynsla þegar komin og verið að skoða hvernig við getum bætt enn betur úr. Sem svar við því að hluta þá lagði ríkisstjórnin á síðasta ári til fjármagn til uppbyggingar á Litla-Hrauni og þar stendur m.a. til að byggja upp aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu fyrir allt fangelsiskerfið. Þetta eru um 2 milljarðar og það er komið að útboði á þessu mikilvæga og stóra verkefni. Að auki verða aðgangsmál fangelsisins bætt þannig að hægt sé að draga úr flutningi fíkniefna inn í fangelsið og stemma stigu við dreifingu slíkra efna innan veggja þess. Standa vonir til þess að þessi bætta aðstaða og bætta heilbrigðisþjónusta geri einstaklingum í fangelsum betur kleift að byggja sig upp og þannig að auka öryggi innan fangelsanna sem og að einstaklingar verði betur í stakk búnir til að takast á við lífið utan þeirra þegar þangað er komið. Þá verður aðstaða fyrir fangaverði á Litla-Hrauni bætt en hún hefur verið mjög bagaleg. Eins og staðan er í dag þá mæta varðstofur fangavarða ekki þeim kröfum sem gerðar eru til varðstofa í fangelsum.

Dómsmálaráðuneytið hefur á vettvangi starfshópsins um heilbrigðisþjónustu rætt um þann vanda sem uppi er í fangelsinu núna til að finna, í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, lausnir þegar um mjög veika einstaklinga er að ræða. Það er unnið að lausnum svo hægt sé að koma upp aðstöðu fyrir lækna á Litla-Hrauni til bráðabirgða á meðan á þeirri mikilvægu uppbyggingu sem fyrir höndum er stendur.

Við höfum einnig sest yfir það hvað við getum gert betur í rekstrarfyrirkomulagi fangelsanna og erum með það til skoðunar. Þar er markmiðið að nýta kannski betur það fjármagn sem við höfum og geta þá fjölgað fangavörðum og eins aukið færni þeirra til að takast á við þann flókna vanda sem er uppi í fangelsum. Hann er auðvitað mjög mismunandi eftir því hvaða fangelsi er um að ræða. Hér var minnst á að það væri bara aðeins einn fangavörður á vakt á næturvakt á Kvíabryggju, en Kvíabryggja er opið fangelsi og það er mjög lítið um að það þurfi valdbeitingu eða annað á þeim vettvangi. Við erum með annað slíkt á Sogni og við erum að skoða t.d. rekstrarumgjörð þessara fangelsa sérstaklega. Þarna eru samtals 43 fangar, rúmir 20 á hvorum stað, og níu fangaverðir á hvorum stað og það gefur auðvitað augaleið þegar nánast er um sambærilega afplánun að ræða, opin fangelsi, að það getur verið einhver hagur í að endurskoða þetta rekstrarfyrirkomulag þannig að við getum betur staðið að málum og gert betur við þá sem eru að gæta þessara fanga á hverjum tíma.

Ég ítreka það að ég hef verið að leita fanga í þessum efnum og við erum með í undirbúningi breytingar á þessu umhverfi. Stóra málið á Litla-Hrauni verður auðvitað þessi nýbygging sem mun skipta sköpum í allri aðstöðu, bæði fyrir fangaverði og alla heilbrigðisþjónustu eins og fram hefur komið. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að bæta þann vettvang þar sem glímt er við þessi erfiðu tilfelli í okkar fangelsum og þau eru á Litla-Hrauni og þar er úrbóta þörf þó fyrr hefði verið.