152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum.

306. mál
[19:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum, svo dæmi sé tekið, er of langur og það eru ákveðnir flöskuhálsar í kerfinu. Þetta á reyndar ekki bara við um kynferðisafbrotamál heldur á þetta við um aðra málaflokka einnig. Það var hópur settur saman að greina þetta betur og við reiknum með því að hann muni skila af sér sinni vinnu núna í vor og það er hluti af þeim áformum sem ég var með um að reyna að bæta úr þessu vegna þess að það þarf að gera það nokkuð víðar. Það er ekki bara rannsóknin sem þarf að horfa til, það er líka saksóknin og síðan afplánunin sem spilar hér saman. Það var gefin út aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisafbrotamála sem gildir út árið 2022 og við erum að leggja grunninn að nýrri áætlun sem tekur við af þeirri sem lýkur á þessu ári. Það er ekki hægt að segja annað en að það hafi tekist að mörgu leyti mjög vel til, áherslur hafa verið auknar mjög á þennan málaflokk og það kannski leiðir af sér m.a. þann málahalla sem hefur verið, þ.e. þennan langan tíma, vegna þess að miklu meira af þessum málum er að leita uppi á yfirborði heldur en áður var. Það er auðvitað út af fyrir sig jákvætt að við gerum okkur betur grein fyrir því hversu víðtækur vandinn er.

Í nýsamþykktum fjárlögum fyrir þetta ár var samþykkt að hækka framlag til löggæslu vegna þessara mála, þ.e. rannsókn og saksókn kynferðisafbrota, í samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans. Það voru um 200 millj. kr. Til grundvallar tillögunum var lögð áhersla á að horfa á kerfið í heild sinni þannig að það taki til allra áskorana sem meðferð kynferðisafbrota felur í sér og það er mikilvægt að hugsa málin frá upphafi til að þolendur njóti réttlátrar málsmeðferðar ásamt því að þau séu afgreidd innan eðlilegs tíma. Það er gert ráð fyrir að þessari 200 millj. kr. hækkun verði varanlega útdeilt til undirstofnana með það í huga að horfa til kerfisins í heild, fara yfir stöðuna hvað varðar meðferð kynferðisafbrota heilt yfir kerfið og efla þau svið þar sem þörfin er mest. Það er mikilvægt til að mynda að styrkja ákæruvaldið í því skyni að auka málshraða sem og að fjölga stöðugildum lögreglumanna og auka búnað til rannsókna. Það verður að taka það fram að það er ekkert einfalt mál að fjölga lögreglumönnum í rannsóknum á þessum vettvangi vegna þess að þetta krefst ákveðinnar sérhæfingar. Það hefur verið vandamál að fá menntaða lögreglumenn til starfa sem hafa getað farið inn í svona framhaldsmenntun og hafa reynslu á þessu sviði. En það er verið að bregðast við því einnig. Þá hefur ríkissaksóknari einnig ákveðið að skipa starfshóp sem fari í þá vinnu að rýna þau kynferðisafbrotamál sem hvað lengstan tíma taka í kerfinu með það fyrir augum að skoða hvaða atriði helst tefja meðferð málanna svo unnt sé að bæta verklag og stytta málsmeðferðartímann. Sá hópur mun skila núna fyrir 1. júní einnig. Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að ég sé að bregðast við þessu af fullum þunga.

Við erum að skoða annað sem hangir alveg sérstaklega saman við þetta og það er hvernig þessum málum er best fyrir komið. Hvernig getum við nýtt sem best þá lögreglumenn sem hafa sérþekkingu á þessu sviði? Getum við gert það mögulega með því að sameina yfirsýn yfir rannsókn þessara mála á einn stað, þó að rannsóknarlögreglumenn geti verið staðsettir hjá mismunandi embættum þá sé yfirsýnin á einum stað? Þetta á svo sem við fleiri þætti sem við erum með í skoðun og það er sérstakur starfshópur sem ég er bara að fá fyrstu hugmyndirnar frá núna og mun fá meira á næstu vikum þar sem við erum að horfa líka til tilfærslu verkefna frá lögreglu til þess að létta af þeim verkefnum sem í sjálfu sér geta verið unnin annars staðar í kerfinu, hjá öðrum stofnunum ráðuneytisins, eins og til að mynda sýslumönnum. Það eru alls konar leyfisveitingar og önnur verkefni sem eiga ekki að vera hjá lögreglu. Ég hef lagt áherslu á það í öllum mínum samtölum við forystumenn í lögreglunni að við eigum fyrst og fremst að horfa til þess að lögreglan sé að sinna sínum sérhæfðu verkefnum og að við munum reyna að létta af þeim öðrum störfum sem geta verið unnin annars staðar. Við erum sérstaklega að horfa til sýslumannsembættanna í þeim efnum. Þetta er allt saman hluti af því. Eins og komið var inn á áðan um fangelsismálin þá erum við að reyna að greina þessa flöskuhálsa sem eru á þessu færibandi sem þetta kerfi er, alveg frá því að rannsókn hefst og þar til afplánun fer fram. (Forseti hringir.) Þeir eru nokkrir á leiðinni og við þá erum við að glíma og reyna að bæta úr (Forseti hringir.) og ég er þakklátur fyrir þann skilning sem málaflokkurinn hefur haft hér á hinu háa Alþingi með auknum fjárveitingum sem við höfum fengið inn í þessi mál.