152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum.

306. mál
[19:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir þessa umræðu og ég get alveg tekið undir þá málefnalegu gagnrýni sem hún var með hér á kerfið í heild sinni. Ég fór yfir það ágætlega í ræðu minni til hvaða viðbragða ég er að reyna að grípa til að vinna úr því. En það verður ekki hjá því komist að minnast á rangfærslurnar sem áttu sér stað í ómálefnalegri umræðu af hálfu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Það er með ólíkindum að hlusta hér á ræðu sem fjallaði um að það stæði til að fækka rannsakendum og senda þá alla til eins sýslumannsembættis. Þetta er ekki umræða, virðulegur forseti, sem kemur okkur áfram. Hér er verið að reyna að villa um fyrir fólki í þinglegri umræðu, það er svo sem þekkt úr þessum ranni, og það er miður, virðulegur forseti. Það er full ástæða til að forsætisnefnd ræði það hvernig sumir þingmenn geta hagað sér í þeim efnum.

Þarf aukið fjármagn? Já, við höfum verið að fá aukið fjármagn. Við erum að leita eftir frekara fjármagni af því að við gerum okkur grein fyrir þessum flöskuhálsum og ég er að gera mitt til þess að vinna það traust sem til þarf á þetta mikilvæga kerfi okkar. Það er reyndar mikið traust til lögreglunnar og það er mikið traust til kerfisins samkvæmt öllum mælingum en við þurfum að gera miklu betur. Þetta er fyrst og fremst, eins og áður hefur verið komið inn á og var komið inn á í málefnum fanga áðan, mannúðarmál. Þetta eru mál sem geta ekki gengið með þessum hætti til lengri tíma. En það er auðvitað skylda mín sem ráðherra líka að horfa til þess að fá sem mest fyrir það skattfé sem okkur er úthlutað. Löggæslan í landinu kostar 21.000 milljónir á ári, 21.000 milljónir. Við þurfum kannski að gera líka betur í því hvernig við nýtum þá peninga og sú skoðun er í gangi. (Forseti hringir.) Áherslumálin eru alveg klár. Átakið sem við settum í gang í kynferðisafbrotamálum er mjög vel heppnað og er núna í fullri keyrslu. (Forseti hringir.) Fjölgun starfsmanna — við erum að gera það. Við erum að fara að fjölga starfsmönnum einmitt sérstaklega í þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Það mun sjá sér stað síðar á þessu ári á grundvelli þeirra fjárveitinga sem við erum að fá.