152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

viðbrögð við efnahagsástandinu.

325. mál
[19:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að svara því sem snýr að aðgerðaáætlun, hvort hún hafi legið fyrir og hvernig ríkisstjórnin ætli að bregðast við til skamms tíma. Þessu hvoru tveggja er hægt að svara með því að vísa í beitingu efnahagsstefnunnar undanfarið. Við höfum síðastliðin tvö ár látið aðgerðir okkar snúast um að verja atvinnu, verja lífskjör, kaupmátt almennings, styðja greinar sem hafa fundið hvað mest fyrir faraldrinum og reynt að tryggja viðspyrnu, vernd og skilyrði vaxtar þegar heimsfaraldrinum myndi ljúka. Umfang styrkja og ríkisábyrgða og hlutabóta var umtalsvert og tók mið af ástandinu.

Það er samdóma álit óháðra aðila að vel hafi tekist til. Fjárhagsstaða heimilanna er sterk í dag og kaupmáttur allra tekjutíunda óx árið 2020. Hagvísar fyrir nýliðið ár benda til þess að sú þróun hafi haldið áfram. Kaupmáttur óx í fyrra. Á síðasta ári var kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann orðinn þriðjungi hærri en fyrir áratug. Þá bendir lífskjararannsókn Hagstofunnar til þess að hlutfall heimila sem eiga erfitt með að ná endum saman hafi aldrei verið lægra en árið 2021, enda voru vanskil heimilanna nálægt sögulegu lágmarki. Það er ekki bara símtal í einn banka sem sýnir fram á þetta heldur eru þetta opinberar tölur, rannsóknir á lífskjörum í landinu, sem eru til vitnis um þetta. Þá hefur leiguverð haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir verulega hækkun fasteignaverðs. Þetta verður að hafa í huga.

Undanfarið ár hefur verðbólga aukist nokkuð, það er engin spurning og er áhyggjuefni, og húsnæðisverðið hefur drifið þá þróun áfram. Sú þróun einskorðast ekki við Ísland, enda er hún afleiðing þess að heimshagkerfið er að komast betur og hraðar út úr kreppunni en reiknað var með. Þegar litið er til sam-evrópsks mælikvarða á verðbólgu er verðbólgan, ef eitthvað er, nokkuð lægri á Íslandi en annars staðar í Evrópu.

Efnahagsstefnunni nú er ætlað að bregðast við aukinni verðbólgu og draga úr hættunni á því að hún leiði til þess efnahagslega óstöðugleika sem lengi einkenndi íslenskt efnahagslíf. Í ár verður því dregið úr stuðningi ríkisfjármálanna við hagkerfið, sem er nauðsynlegt skref til að stöðva hækkun skuldahlutfallsins. Áframhaldandi stuðningsaðgerðir nú myndu valda meiri halla ríkissjóðs en ella, ýta undir verðbólgu og vinna gegn hagsmunum heimila og fyrirtækja.

Síðustu ár höfum við ráðist í kerfisbreytingar í því skyni að draga úr sveiflum og auka sveigjanleika og viðnámsþrótt heimila með góðum árangri. Nýlegar breytingar á tekjuskattskerfinu hafa lækkað skattbyrði og jaðarskatta þeirra tekjulægstu umtalsvert og eins og ég hef rakið hefur kaupmáttur tekjulægri heimila verið vaxandi undanfarin ár. Stimpilgjöld á lánaskjölum hafa verið afnumin og þök sett á umframgreiðslugjöld, sem eru auk þess engin á lánum með breytilegum vöxtum. Svigrúm fólks til að endurfjármagna lán við breyttar aðstæður hefur því stóraukist. Við sjáum að mikill hreyfanleiki er á lánamarkaði og aukin ásókn hefur verið í lán á föstum vöxtum.

Skuldir heimilanna eru nú meira en þriðjungi lægri, í hlutfalli við ráðstöfunartekjur, en fyrir áratug síðan. Í hlutfalli við landsframleiðslu eru skuldir heimilanna hvergi lægri á Norðurlöndum en hér og í þrjátíu ár hafa raunvextir á húsnæðislánum ekki verið lægri. Það eru í raun og veru frábær kjör á húsnæðislánum í dag, þau bestu í áratugi. Það skiptir máli.

Samandregið höfum við kosið að vinna gegn sveiflum í efnahagslífinu með heilbrigðri heildarumgjörð, frekar en að ráðast í sértækar aðgerðir í hvert sinn sem verðbólga fer tímabundið yfir markmið Seðlabankans. Þannig hafa heimili og fyrirtæki svigrúm til að bregðast tímanlega og skynsamlega við breytingum í hagkerfinu á eigin forsendum, líkt og í kjölfar heimsfaraldursins.   Ráðuneytið fylgist auðvitað með áhrifum vaxtabreytinga á greiðslubyrði fólks í viðkvæmri stöðu og ungs fólks að því marki sem gögn leyfa. Þá er einnig fylgst með þróun skuldsetningar og greiðslubyrði heimila á vettvangi fjármálastöðugleikanefndar. Við erum að styðjast við gögn Seðlabankans um ný lán sem innihalda upplýsingar um skuldsetningu, greiðslubyrðarhlutföll og tegundir lána frá einum mánuði til annars og þetta eru gögn sem fyrst og fremst ná til nýrra lána.

Við þurfum að beina sjónum okkar að því hvað er skynsamlegt að gera til þess að ná til lengri tíma jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði en nýlega skipaði ríkisstjórnin starfshóp (Forseti hringir.) um umbætur á húsnæðismarkaði sem hefur tekið til starfa og við höfum væntingar um að á komandi vikum komi tillögur frá starfshópnum.