152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Nú á dögum hefur umræðan um málsmeðferðartíma kynferðisbrotamála náð skriði á ný. Ástandið er óboðlegt, eins og oft hefur verið bent á, og ákallið um breytingar hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum. Raunin er sú að enn situr stór hópur eftir sem á um sárt að binda, hópur fólks sem treystir réttarkerfinu ekki og réttilega svo. Þessi hópur fólks er látinn bíða út í hið óendanlega. Hann er í rauninni alfarið hlunnfarinn af kerfinu. Það er erfitt að treysta kerfi sem frestar rannsókn og dregur meðferð máls manns í sífellu. Að lokum verður kerfið rúið trausti sem er skelfileg tilhugsun.

Orðið á götunni er að málsmeðferðartíminn sé of mikil fyrirstaða sem hefur það í för með sér að fólk sleppir því jafnvel að kæra. Það að sumt fólk kæri ekki kynferðisbrot vegna tímans sem málsmeðferð gæti tekið er algjörlega óásættanleg staða sem er einmitt það sem gerist þegar stofnanir og ákæruvaldið njóta ekki trausts brotaþola. Við erum komin á þann stað að það tekur að meðaltali 14 mánuði fyrir lögregluna að rannsaka nauðgunarbrot. Hvers konar kerfi er það? Það hlýtur að vera markmið og vilji Alþingis að lögin sem við setjum og fjármagnið sem við veitum í stofnanir stuðli að sanngjörnu réttarkerfi en skilji fólk ekki eftir með laskaða trú á kerfunum sem við höfum skapað.

Hér á ákæruvaldið ekki eitt sök enda er það okkar hér á Alþingi að efla lögregluna með fræðslu og mönnun til að yfirfara þessi mál af vandvirkni. Biðin eftir málalokum skapar ólíft andrúmsloft fyrir alla aðila sem eru málum viðkomandi, biðin ein og sér skapar óþarfa þjáningar og óvissu og töf á málum hefur það oft í för með sér að refsing er milduð eða jafnvel felld niður. Við eigum að hvetja fólk til að leita réttar síns en ekki að fæla það í burtu frá því.