152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta er alveg með ólíkindum. Við hófum þingið í haust á því að finna algerlega fyrir því að meiri hlutinn ætlaði sér ekkert að hlusta á minni hlutann og taldi hann í sjálfu sér ekki eiga neitt erindi inn í umræður og annað. Þá óvirðingu sjáum við halda áfram í því að við erum hérna vikum saman að ræða mál sem hver manneskja veit að stjórnin ætlar sér ekki að hleypa neitt lengra og bíðum í ofvæni eftir öllum málunum sem áttu að byrja að tínast hérna inn frá janúar. Svo þegar málin koma loksins hingað inn á borð — og þetta eru mál sem við vitum að ríkisstjórnin ætlar sér að ná í gegn. Það er augljóst að við viljum ræða þau. Það er augljóst að það þarf að gera breytingar á þessum málum. Það er augljóst að þau þarf að skoða og það þarf að gera með minni hlutanum. Það að það skuli koma meirihlutaflokkunum á óvart að við skulum vilja ræða málin þegar ekki er meira samráð haft við okkur yfir höfuð er í rauninni alveg með ólíkindum.