152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:11]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Hæstv. innviðaráðherra talar um gíslatöku stjórnarandstöðunnar en ég er bara að pæla: Hvað með ráðherrana sjálfa? Hvað með þegar ráðherrar Framsóknarflokksins leggja fram illa unnin frumvörp sem taka allan tíma þingsins? Nú er ég að tala um nikótínfrumvarpið. Þar er óljóst orðalag um menntastofnanir, óljós svör um hvað teljist bragðefni, engin hugmynd um hvað nikótínpúðarnir mega vera sterkir. Allt þetta eru risastórar spurningar sem ráðuneytið hefur ekki hugmynd um hvernig eigi að svara en skilar þess í stað hálfkláruðu frumvarpi sem þingið á bara einhvern veginn að redda. Svo kvarta ráðherrar yfir því að 1. umr. í málinu hafi tekið fjóra klukkutíma. Ég botna ekkert í þessum vinnubrögðum og ég botna bara ekkert í Alþingi eins og staðan er núna. En ég held að ábyrgðin sé ekki stjórnarandstöðumegin. Ég held að hún sé einmitt ríkisstjórnarmegin og út af frumvörpunum sem ráðherrarnir leggja fram.