152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég er ekki alltaf hér, enda er ég varaþingmaður. Ég var samt spennt að koma hérna inn í þessari viku og fylgjast með reglulegum störfum þingsins þar sem ráðherrar mæla fyrir málum sínu og stjórnarliðar taka þátt í umræðunni. En svo er ekki. Það er einn stjórnarþingmaður inni í sal. Er þetta venjulegt, spyr ég nú bara? Á þetta að vera svona? Mér sýnist ekki. Er venjulegt að ráðherra sé ekki hér, sem er mæla fyrir sínu eigin máli, að taka þátt í umræðum um það? Ég veit það ekki. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál og því tek ég undir með hv. þingmönnum sem hafa hér stigið í pontu og sagt slíkt hið sama. Mér finnst það í alvörunni talað vera algjör lágmarkskrafa að ráðherrar og stjórnarliðar séu í sal og taki þátt í umræðum fyrst við erum neydd til að búa við ráðherraræði en ekki þingræði eins og er mælt fyrir um í lögum. Þetta er gjörsamlega galið fyrirkomulag, frú forseti.