152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti áhugavert að hlusta á ræðu þingmannsins hér áðan og tengi við margt sem kom fram í máli hans. Mér finnst hins vegar sjálf sú þróun sem maður hefur séð á síðustu árum, sem öll gengur út á það að einfalda hlutina og stytta, heimasíður og annað, oft ganga helst til langt og ganga oft það langt að upplýsingarnar sem vantar er á endanum hvergi að finna. Ég lendi mikið í þessu þegar ég er að skoða heimasíður. Ég er reyndar mjög upplýsingaóð manneskja, hef mikinn áhuga á því að vita allt um allt.

Þingmaðurinn talar um að það sé annars vegar erfitt að skilja allt sem kemur fram í tæknilegu frumvarpi sem þessu og það er kannski langt og viðamikið og svoleiðis, en ég velti fyrir mér: Þegar um jafn mikilvægan hlut er að ræða og fjarskipti, sem eru sífellt að verða flóknari og kannski fleiri tegundir að verða til og annað sem við höfum misdjúpan skilning á, finnum við þá ekki meira öryggi fólgið í því að það séu til ítarlegri reglur, ítarlegar upplýsingar um það hvernig hlutirnir eiga að vera akkúrat til þess að þeir sem hafa þekkinguna geti ekki notfært sér fáfræði okkar hinna til að brjóta gegn réttindum okkar, eins og brjótast inn í kerfi og annað? Þetta er fyrsta spurningin til þingmannsins. Svo langar mig líka að minnast á að það er sannarlega ekki þannig að við getum tryggt það með tæknilegum leiðum með öllu að það verði aldrei brotið á okkur neins staðar og það á svo sem við um fleiri svið en endilega bara tæknina. En þá skiptir einmitt svo miklu máli að til séu leikreglur (Forseti hringir.) sem hægt er að vísa í og hægt er að beita og krafist þess að sé fylgt (Forseti hringir.) til að hægt sé að gæta að réttindum okkar þegar eitthvað kemur upp á.