152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir svarið. Ég ætla að fá að taka undir með honum um að hér eru ekki færð efnisleg rök fyrir þessari breytingu. Ég er sammála honum þegar kemur að því að hér hafi ekki verið vandað nógu vel til verka. Hér fyrir framan mig er ég með 130 blaðsíður, rúmlega það, frumvarp með greinargerð. Ég hefði haldið að ráðuneytið hefði fært aðeins betri rök og vandað aðeins meira til verka þegar kemur að því að boða þessar breytingar. Þetta er náttúrlega gríðarlega mikilvægt frumvarp og þetta eru stórar breytingar sem eiga sér stað þarna og greinilega er þetta ekki hugsað nógu vel til enda, þá sérstaklega ekki varðandi þá þætti sem hv. þingmaður nefndi. Og já, eins og ég sagði held ég að það sé algjör lágmarkskrafa að færa góð og efnisleg rök fyrir svona stórum breytingum þegar kemur að svona stóru frumvarpi eins og við erum að ræða hér í dag.