152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:45]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Hér er vissulega um að ræða stórt og mikilvægt mál og spurningin varðar alþjóðlegt öryggi. Ég verð að fá að taka undir með hv. þingmanni um að þetta er voðalega skrýtin orðræða sem hefur átt sér stað af hálfu fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Ég biðst afsökunar, ég man ekki alveg hver spurningin var. (GE: Hversu langt er hægt að ganga í þessu netöryggi og heimildum stjórnvalda í að beita fyrir sig …?) Þetta er reyndar rosalega mikilvæg spurning og ég held að við hér á Íslandi höfum reyndar ekki alveg pælt í því að við erum ekki búin að ná almennilegu netöryggi. Við höfum ekki pælt í því hversu langt við getum gengið og borið netöryggi fyrir okkur til þess að útiloka ákveðna viðskiptavini eða ákveðnar þjóðir frá viðskiptum við okkur. Ég held að það sé ekki hægt að meta það eins og staðan er núna af því að það eru enn þá vankantar þegar kemur að netöryggi á Íslandi. Við höfum ekki náð því og þetta frumvarp sýnir svart á hvítu hvað við eigum langt í land. Að sjálfsögðu er ekki hægt að bera einhver innihaldslaus rök fyrir sig og neita viðskiptum eða banna viðskipti við einhverjar tilteknar þjóðir á grundvelli netöryggis. Þetta er náttúrlega grafalvarlegt mál og mér finnst það vera einhvers konar gaslýsing í garð þjóðarinnar ef við beitum þessum rökum fyrir okkur.