152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:52]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jónssyni fyrir andsvarið og raunar mjög góða pælingu. Hann kom inn á 72. gr. og binditímann og nefndi umsögnina frá hagsmunaaðilanum Vodafone. Þar var einmitt hvatt til lengri tíma eða frekari breytinga, gengið enn þá lengra í þessum efnum. Það var eitthvað sem var greinilega ekki fallist á í frumvarpinu, að gengið yrði enn lengra í þessum efnum. Framkvæmdarvaldið á það til að gera þetta. Nú ætla ég að byrja á vinnubrögðum ráðuneytisins og aðallega ráðherra. Hæstv. ráðherrar eiga það til — alla vega á þessu kjörtímabili af því að ég byrjaði á þingi á þessu kjörtímabili — að taka ekki tillit til umsagna, að vinna þetta ekki út frá sjónarmiðum hagsmunaaðila. Ég skil það auðvitað en stundum þegar við erum að vinna með svona stór og umfangsmikil mál verðum við einfaldlega að sætta okkur við það að það er fólk þarna úti, það eru fyrirtæki þarna úti sem vita betur um þetta en við. Svo nefnir hann sjónarmiðin, hvort þau skipti máli og hvort eigi að taka tillit til þeirra. Hér skipta sjónarmiðin ekki öllu máli. Það eru vinnubrögðin. Það eru vinnubrögðin sem ég legg aðallega áherslu á, vinnubrögðin við gerð og afgreiðslu þessa frumvarps, að það hafi verið skautað fram hjá þessum umsögnum af því að kannski var Vodafone ekki eini umsagnaraðilinn sem benti á slíkt hið sama. Hvers vegna held ég að þetta hafi komið fram í frumvarpinu? Ég veit það ekki. Ég velti fyrir mér hvort betri samningar séu í boði eða hvort þetta varði einhver fyrirtæki og hvort við gætum fengið betri samninga ef binditíminn væri lengri. Þetta eru alla vega rosalega góðar pælingar. Ég get ekki svarað nákvæmlega akkúrat núna, enda er ég að renna út á tíma.