152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:04]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig rosalega mikið að heyra að ég og hv. þingmaður erum sammála um þessi sjónarmið sem hafa komið fram í ræðum og bara hér í kvöld almennt. Ég hef séð þetta reglugerðarvald frekar oft og frekar mikið núna á þessu kjörtímabili enda, eins og ég sagði áðan, var ég að koma inn á þing í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili. Nú er ég inni í fjórða skiptið og alltaf þegar ég kem hérna inn tek ég eftir einhverju nýju frumvarpi þar sem ráðherrann mælir fyrir um nánari útfærslu eða nánari framkvæmd í reglugerð. Þetta er auðvitað óboðlegt ástand eins og staðan er núna. Ég held að það sé algjör lágmarkskrafa til ráðherra að vinna frumvörpin sín vel fyrst stjórnarfrumvörp eru einu frumvörpin sem fá að koma að komast í gegnum þingið eins og við höfum séð núna á síðustu mánuðum og á þessu kjörtímabili. Þá mega þau alveg vinna þetta frumvarp vel og ekki setja restina af vinnunni á þingið, á þingmenn, og restina af valdinu á ráðherrana. Þetta er ójöfn skipting og það á einfaldlega ekki að vera svona, ekki í þingræði og við búum við þingræði, ekki ráðherraræði.