152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann virðist hafa talsverða tiltrú á þessu frumvarpi og á heildina litið fagna tilkomu þess og vonast til að það verði samþykkt. Það sem kom einnig fram í ræðu þingmannsins, sem vakti mína athygli, var að hann talaði um stjórnvöld sem misnota aðstöðu sína, vangaveltur um það hversu langt er hægt að ganga til verndar rannsóknahagsmunum lögreglu og annarra stjórnvalda og vísaði til þess að í frumvarpinu er fullyrt að ætlunin með því sé m.a. að tryggja að ekki sé verið að ganga á réttindi einstaklinga. Nú er í frumvarpinu ákvæði sem er í núgildandi lögum um fjarskipti og er nánast óbreytt. Þetta er ákvæði sem kemur inn árið 2005 í kjölfar umræðu sem á sér stað í Evrópu um svokallaða gagnageymd, sem er skylda fjarskiptafyrirtækja til að geyma tilteknar upplýsingar um hegðun fólks á internetinu ef vera skyldi að einhver skyldi brjóta af sér einhvern tímann einhvers staðar á einhvern hátt. Þetta ákvæði í Evrópulöggjöf var dæmt ógilt árið 2014 og það hafa verið í umræðunni einhverjar tilraunir til þess að útfæra slíkt ákvæði en það hefur ekki tekist enn þá og það hefur ekki verið gert enn þá. Þarna erum við sem sagt með ákvæði í þessu frumvarpi sem byggir á reglum sem búið er að skera úr um að gangi gegn mannréttindum fólks. Aðspurð um þetta ákvæði hefur hæstv. ráðherra í raun bara afhjúpað það að það er í rauninni ekki búið að hugsa nógu vel út í þetta. En mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi engar áhyggjur af þessu.